Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur meiri stuðnings en stjórnin

Fleiri styðja Sjálfstæðisflokkinn en Samfylkinguna og Vinstri græn samanlagt samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins. Yrðu niðurstöður kosninga í takt við könnunina gætu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndað meirihlutastjórn.

Rétt er að taka niðurstöðum könnunarinnar með talsverðum fyrirvara þar sem aðeins um 54 prósent þeirra sem þátt tóku í könnuninni vildu gefa upp hvaða flokk þeir myndu kjósa yrði gengið til kosninga nú. Þetta gefur sterklega til kynna að lítið hafi dregið úr óánægju almennings með hefðbundna stjórnmálaflokka.

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur nú stuðnings 43,4 prósenta samkvæmt könnuninni, sem er 7,8 prósentustigum meira en í könnun Fréttablaðsins í september síðastliðnum. Alls sögðust 25,8 prósent styðja Samfylkinguna, 2,6 prósentustigum meira en í september. Um 16,5 prósent styðja nú Vinstri græn, og hefur fylgið minnkað um 9,1 prósentustig frá því í september í fyrra.

Stjórnarflokkarnir mælast með stuðning 42,3 prósenta þeirra sem gefa upp afstöðu til flokka, og fengju samtals 28 þingmenn kjörna yrðu þetta niðurstöður þingkosninga.

Framsóknarflokkurinn nýtur samkvæmt könnuninni stuðnings 11,8 prósenta kjósenda, 4,5 prósentustigum meira en í september.

Aukinn styrkur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks opnar á möguleikann á gamalkunnu stjórnarformi. Flokkarnir gætu myndað meirihluta með 35 þingmenn yrðu niðurstöður kosninga í takt við könnun Fréttablaðsins.

Samkvæmt könnuninni hrynur stuðningur við Hreyfinguna frá síðustu könnun. Um 2,1 prósent styður flokkinn nú, en 5,6 prósent studdu hann í september í fyrra.- bjAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.