Innlent

„Menn eiga ekki að gera svona"

Mynd/www.n4.is
Formaður siðanefndar Sambands íslenskra auglýsingastofa segir auglýsingar Office 1 sem birtust á Akureyri fyrir jól siðlausar.

„Ég tel mjög eðlilegt að þeir biðji viðeigandi afsökunar," segir formaðurinn.

Office 1 notaði í heimildarleysi persónur formanns bæjarráðs Akureyrar og tveggja skólameistara í bæjarfélaginu í auglýsingar. Þær birtust fyrir jól með myndum af Oddi Helga Halldórssyni, formanni bæjarráðs, Jóni Má Héðinssyni, skólameistara MA og Hjalta Jóni Sveinssyni, skólameistara VMA. Þar var auk þess haft eftir þeim að þeir ætluðu að spara í ár.

Fyrst var fjallað um málið vef sjónvarpsstöðvarinnar N4 á Akureyri. Þar var haft eftir Jóni Má að hann kannaði nú lagalega stöðu sína. Af sama tilefni sagði Erling Ingason, markaðsstjóri Office 1: „Þetta var okkar húmor og fólk verður að geta tekið því."

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, er formaður siðanefndar SÍA.
Í samtali við Vísi kveðst Jóhannes Gunnarsson, formaður siðanefndar SÍA, vera ósáttur við vinnubrögð ritfangaverslunarinnar. „Að sjálfsögðu er út í hött að nota myndir af mönnum óforspurðum í auglýsingar. Þetta er út fyrir það sem ég myndi telja siðlegt."

Þá segir hann: „Menn eiga ekki að gera svona. Það er mjög einfalt."

Jóhannes segir að siðanefndin fjalli fyrsti og fremst um kærur sem henni berast, en þær eru um tvær til þrjár á ári hverju. „Til að siðanefndin fjalli um þetta mál reikna ég með því að við yrðum að fá kæru til okkar. Í þessu tilfelli væri eðlilegt að þeir sem eiga í hlut myndu leggja fram kæru."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×