Innlent

Meintur nauðgari flutti til útlanda - rannsókn á lokastigi

Rannsókn lögreglu á nauðgun sem ungur piltur kærði karlmann um þrítugt fyrir í maí á síðasta ári er á lokastigi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur verið erfitt að ná í manninn þar sem hann fluttist búferlum erlendis í kjölfar kærunnar. Von var þó á honum til landsins nú um jólin, þar sem ráðgert var að ræða við hann.

Maðurinn kom þó ekki til landsins og er ekki von á honum hingað á næstunni eftir því sem fréttastofa kemst næst. Lögregla hefur þó verið í sms-sambandi við manninn vegna málsins en einungis á eftir að ræða við nokkur vitni áður en málið verður sent til saksóknara, sem ákveður hvort gefin verði út ákæra eða ekki.

Fyrst var sagt frá málinu í Fréttablaðinu þann 19.maí síðastliðinn en þar kom fram að maðurinn hefði boðið piltinum, sem er um tvítugt, í samkvæmi heim til sín í Hafnarfirði. Þegar þangað var komið var enginn nema húsráðandi á staðnum. Áfengi var haft um hönd og sofnaði pilturinn í kjölfarið. Hann vaknaði síðan við að maðurinn var að misnota hann.

Pilturinn fór nokkru síðar á neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis á Landspítalanum og kærði í kjölfarið.

Þetta mun ekki vera í fyrsta skipti sem maðurinn er sakaður um nauðgun. Fréttastofa Stöðvar 2 birti viðtal við annan pilt sem sagði svipaða sögu þegar málið komið upp í maí á síðasta ári.






Tengdar fréttir

Enn einn pilturinn stígur fram og segist hafa lent í meintum nauðgara

Tvítugur piltur í Hafnarfirði sem segist hafa verið nauðgað af þrítugum karlmanni vonar að hann verði dæmdur í fangelsi. Hann upplifði mikla skömm og niðurlægingu eftir atvikið en hann hefur leitað til Stígamóta og gengið til sálfræðings vegna þess. Annar piltur hefur kært manninn fyrir nauðgun en alls hafa fjórir piltar sakað manninn um að hafa leitað á sig.

Piltur kærir nauðgun

Piltur um tvítugt hefur lagt fram kæru um nauðgun. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins kærði maðurinn misneytinguna af hendi sér eldri karlmanns til lögreglu eftir helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×