Innlent

Valinn úr níu þúsundum í sænska Survivor

Hjálmtýr á ströndinni í Robinson
Hjálmtýr á ströndinni í Robinson
„Ég vissi að þetta ævintýri yrði svakalega erfitt, krefjandi og skemmtilegt,“ segir hinn 22 ára Hjálmtýr Daregård, um þátttöku sína í raunveruleikaþættinum Robinson, sem er sænskur Survivor-þáttur. Hann var einn af tuttugu sem valdir voru úr 9000 manna hópi.

Efnið var tekið upp á Filippseyjum, nú í vor. Hjálmtýr segir hungrið hafa verið hvað erfiðast enda léttist hann um tíu kíló á þremur og hálfri viku. „Þegar ég sá mig í spegli á eftir þekkti ég varla sjálfan mig,“ segir Hjálmtýr sem einnig þurfti að leysa ýmsar magnaðar þrautir innan um eitraða snáka, sporðdreka, banvænar marglyttur, moskítóflugur, skriðdýr og fleira kvikt.

Hjálmtýr er hálf sænskur og hálf íslenskur og hefur búið í löndunum til skiptis. Nú er hann í Svíþjóð og stundar nám við Viðskiptaháskólann í Stokkhólmi, auk þess að starfa við byggingarfyrirtæki fjölskyldunnar. Hann er að skrifa bók, undirbúa Íslandsferð í vetur með 50 manna hóp, og góðgerðastarf í Afríku er á dagskránni. „Èg er mjög stoltur af að vera íslenskur og kem í heimsókn þrisvar til fimm sinnum á hverju ári,“ segir hann.

Þetta er fjórtánda árið sem Robinson er á dagskrá. Alls fylgdust 1,3 milljónir með fyrsta þættinum þetta haustið. Næsti þáttur er annað kvöld, fimmtudag, klukkan 20 að sænskum tíma á TV4, sem er opin stöð. Einnig er hægt að nálgast þáttinn á síðunni tv4play.se/noje/robinson.

gun@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×