Innlent

„Mönnum var dálítið brugðið“

Flugvél Icelandair
Flugvél Icelandair mynd úr safni
„Þeir voru ekki alveg vissir um ástand fólks og vildu fá okkur á staðinn þegar vélin kæmi,“ segir Guðmundur Þórir Ingólfsson, verkefnastjóri hjá neyðarnefnd Suðurnesjadeildar Rauða krossins, sem var einn af þeim sem veitti farþegum frá Kaupmannahöfn áfallahjálp í gærkvöldi.

Aftakaveður var í Keflavík í gærkvöldi og var flugvél Icelandair beint til Akureyrar eftir að hafa reynt að lenda tvisvar í Keflavík án árangurs. Þar var beðið eftir að óveðrið gengi yfir. Svo var tekið eldsneyti á Akureyrarflugvelli og lenti vélin í Keflavík á miðnætti á heilu og höldnu.

Guðmundur segir að fólki hafi skiljanlega verið brugðið en mikil ókyrrð var í loftinu. „Það voru þrír farþegar sem leituðu til okkar og töluðu við okkur,“ segir hann. Ef alvarlegra tilvik kemur upp er fólki bent á að tala við hjálparsíma Rauða krossins eða leita sér aðstoðar á Borgarspítalnum. „Þetta er hálfgerð fyrsta hjálp sem við veitum,“ segir hann. „Mönnum var dálítið brugðið.“

Hann segir að á síðasta ári hafi deildin farið sautján sinnum upp á Keflavíkurflugvöll til veita farþegum í aðstæðum sem þessum sálrænan stuðning. „Flugfélögin eru líka farin að tækla þetta meira sjálf en við erum alltaf með viðbragðshóp tilbúinn.“

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir engin hætta hafi verið á ferðum í gærkvöldi og farið hafi verið eftir ítröstu öryggisreglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×