Innlent

Obama samþykkir pólitískar aðgerðir gegn Íslandi vegna hvalveiða

Hvalur. Myndin er úr safni.
Hvalur. Myndin er úr safni.
Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur samþykkt aðgerðir gegn Íslendingum vegna hvalveiða. Leikkonan Hayden Panettiere fagnar aðgerðunum og þakkar forsetanum fyrir að sýna hugrekki gegn Íslendingum.

Forsetinn samþykkti að beita svokölluðum Pelly ákvæði vegna hvalveiðanna í dag. Viðskiptaþvingunum verður hinsvegar ekki beitt.

Fulltrúar íslenskra stjórnvalda funduðu fyrir helgi með bandaríska utanríkisráðuneytinu í Washington til að ræða hugsanlegar refsiaðgerðir Bandaríkjamanna vegna hvalveiða Íslendinga.

Viðskiptaráðherra Bandaríkjanna fór fram á það í júlí að Barack Obama Bandaríkjaforseti beitti Íslendinga refsiaðgerðum vegna hvalveiða.

Obama hefur nú samþykkt að gripið verði til aðgerða gegn landinu. Slíkar aðgerðir fela í sér að dregið verður úr samskiptum þjóðanna. Meðal annars með diplómatískum aðgerðum, eins og að bandarísk ráðuneyti meti það hvort það sé viðeigandi að sækja landið heim.

Þá skal einnig taka til skoðunar heimskautasamtarf við Íslendinga auk þess sem bandarískir embættismenn verða sendir hingað til lands til þess að gera íslenskum stjórnvöldum grein fyrir afstöðu Bandaríkjanna og hvetja ennfremur til þess að hvalveiðum verði hætt.

Þá eiga bandarísk yfirvöld að ráðfæra sig við önnur lönd um að hvernig best sé að þrýsta á Íslendinga að hætta hvalveiðum.

Leikkonan Hayden Panettiere, sem er þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttunum Heroes, hefur þegar sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún fagnar ákvörðun forsetans. Hún er alþjóðlegur talsmaður The Whaleman Foundation. Hún hvatti Obama í ágúst síðastliðnum að grípa til aðgerða gegn Íslandi vegna hvalveiðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×