Innlent

Reis upp en hneig niður undan reyknum

Maður sem leið átti um Eiðsvallagötu á Akureyri í gær forðaði sofandi ungmennum frá stórslysi.Mynd/Daníel Guðmundsson
Maður sem leið átti um Eiðsvallagötu á Akureyri í gær forðaði sofandi ungmennum frá stórslysi.Mynd/Daníel Guðmundsson

Þrír menn og kona á þrítugsaldri sluppu heil þegar eldur kom upp í kjallara þriggja hæða einbýlishúss á Akureyri í bítið í gær.

Klukkan var tuttugu mínútur yfir sjö um morguninn þegar Steinþór Stefánsson gekk framhjá húsinu á Eiðsvallagötu 5. Ekki náðist tal af Steinþóri í gær en að sögn lögreglumanns heyrði Steinþór í reykskynjara og sá síðan reyk koma út um glugga. Hann barði þá húsið að utan og náði að vekja tvo íbúa sem náðu síðan að vekja aðra tvo. Þessir tveir fyrstu náðu að komast sjálfir út en slökkviliðsmenn sóttu par á efstu hæðinni. Pilturinn þar hafði þá rumskað en hnigið niður undan miklum reyk er hann reyndi að rísa á fætur.

Lögreglumaðurinn segir eld hafa verið í hillu í kjallara hússins þegar að var komið og vel hafi gengið að ráða niðurlögum hans. Tveir piltar sem eru með herbergi í kjallaranum voru ekki heima þessa nótt.

Íbúarnir í Eiðsvallagötu 5 eru vinahópur á bilinu 20 til 24 ára sem leigir húsið saman. Ungu mennirnir og konan sem voru heima fengu aðhlynningu á sjúkrahúsi við vægri reykeitrun. Þau voru slegin yfir atburðinum. Húsið er óíbúðarhæft í augnablikinu vegna reyksins, sem meðal annars stafaði af uppblásanlegri plastsundlaug. Óvíst er um elds­upptökin.

„Það er mesta mildi að þessi maður var þarna á ferðinni. Hann brást hárrétt við og stóð sig mjög vel,“ segir lögreglumaðurinn á Akureyri, sem biðst undan því að nafn hans komi fram. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×