Erlent

Vonast til að geta gengið eftir 6 mánuði

Læknirinn Pedro Cavadas greinir frá aðgerðinni á blaðamannafundi.
Læknirinn Pedro Cavadas greinir frá aðgerðinni á blaðamannafundi. Mynd/AP
Spænski maðurinn sem á aðfaranótt mánudags fékk á sig grædda tvo fótleggi, gæti átt von á að geta gengið við hækjur eftir sex eða sjö mánuði ef endurhæfing gengur vel. Skurðaðgerðin var framkvæmd á aðfaranótt mánudags í Valencia á Spáni, en það tók læknana 10 klukkustundir að græða fótleggina á manninn.

Að sögn skurðlæknisins Pedro Cavadas, sem hafði yfirumsjón með aðgerðinni, varð sjúklingurinn himinlifandi þegar hann sá nýju útlimina, en hann missti báða fætur í slysi og getur ekki notað gervilimi sökum þess hve hátt fyrir ofan hné skaðinn varð.

Læknirinn sagði að ef allt gengi að óskum væri það raunhæft að vonast til þess að sjúklingurinn gæti verið farinn að ganga við hækjur eftir sex eða sjö mánuði, en aðrir sérfræðingar telja að hann gæti þurft að bíða eitt til tvö ár áður en hann getur notað nýju fótleggina. Þá sagði læknir í viðtali við the Washington Post að vangeta sjúklingsins til að nota gervilimi gæti einnig haft áhrif á líkurnar á því að hann endurheimti tilfinningu í fótleggjunum.

Sjúklingurinn mun þurfa að taka lyf það sem eftir lifir af ævinnar til að koma í veg fyrir að líkami hans hafni nýju fótleggjunum, en slík lyf hafa alvarlegar aukaverkanir á borð við líffæraskaða. Spurningar hafa því vaknað um það hvort áhætturnar sem fylgja nýju útlimunum vegi þyngra en kostirnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×