Innlent

Leita betur að einhverju öðru fyrir Þingeyinga

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar

Forstjóri Landsvirkjunar segir að nýting jarðvarmaorkunnar í Þingeyjarsýslum henti betur smærri fyrirtækjum og stórir aðilar yrðu að sættast á að fá orkuna í þrepum. Hann boðar að leitað verði betur að hugsanlegum orkukaupendum.

Þegar ríkisstjórnin haustið 2009 hafnaði að framlengja viljayfirlýsingu við Alcoa um álver á Bakka var í staðinn sett á laggirnar verkefnisstjórn sem átti fyrir 1. apríl 2010 að ljúka fyrstu könnun á því hvaða iðnaðaruppbygging kæmi helst til greina semm nýtti orkuna í Þingeyjarsýslum. Síðan átti að nýta tímann fram til 1. október 2010 til nánari viðræðna og samningagerðar við þá sem til greina kæmu. Þessar dagsetningar eru nú liðnar en samningagerðin hefur verið sett í hendur Landsvirkjunar.

Hörður Arnarson forstjóri segir að bæði sé verið að ræða við stóra aðila og litla. Hann segir svæðið henta á margan hátt betur fyrir minni aðila. Stórir aðilar verði að sættast á að nýta það í þrepum. Það sé eðli jarðhitans og ekki hægt að nýta hann allan í einu stóru skrefi.

Landsvirkjun hefur upplýst að hún er í viðræðum við fjóra til fimm aðila. Athygli vekur að fyrirtækið telur nú ástæðu til að finna fleiri viðsemjendur og helst fjölga þeim í tíu. En hvenær má búast við að það skýrist hvaða atvinnuuppbygging verði í Þingeyjarsýslum?

Hörður segir unnið hörðum höndum að þessum málum og með því að fjölga þeim aðilum sem rætt sé við telji hann að líkur aukist á því að samningar náist og fjölbreytt fyrirtæki fáist að borðinu.

"Með því stóraukast líkurnar á því að við náum hagstæðri lendingu. En hvenær það verður er því miður ómögulegt að segja," segir Hörður.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×