Erlent

Á sjöunda hundrað hafa verið handteknir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglumenn á vaktinni í Lundúnum. Mynd/ AFP.
Lögreglumenn á vaktinni í Lundúnum. Mynd/ AFP.
Nú hafa 685 manns verið handteknir vegna óeirðanna í Lundúnum sem upphófust á laugardagskvöld. Um sextán þúsund lögregluþjónar vakta göturnar í kvöld eins og sagt hefur verið frá. Yfir hundrað lögreglumenn hafa særst í átökum við óeirðarseggi, enda svífast þeir einskis og henda öllu sem hendi er á festandi í lögregluþjónana. Í kvöld var múrsteinum hent í lögreglumenn.

Samkvæmt lýsingu Sky fréttastöðvarinnar hafa átökin breiðst víða út. Þau breiddust út til Manchester í nótt og hafa verið áberaandi þar. Það sem af er kvöldi hafa 47 verið handteknir í Manchester og Salford. Lögreglan í Manchester segir ofbeldið þar í kvöld vera algerlega fordæmislaust og tilgangslaust.

Fjöldi Íslendinga er staddur í Lundúnum. Vísir náði tali af ungri konu í Croydon fyrr í kvöld sem hafði ekki komist til þess að kaupa bleyjur á barnið sitt sökum þess að allt var lokað vegna óeirða. Hún sagði að framan af í kvöld hefði allt verið rólegt í Croydon. Nú berast hins vegar fréttir af því að 21 árs gamall karlmaður hafi verið handtekinn þar fyrir að hafa kveikt í húsgagnaverslun.


Tengdar fréttir

Óeirðir breiðast út fyrir höfuðborgina

Óeirðir halda enn áfram í London og hafa breiðst út um borgina. Meira en tvö hundruð manns hafa verið handteknir vegna óeirðanna og 35 lögreglumenn eru særðir.

Maður skotinn til bana í Lundúnum

Tuttugu og sex ára gamall maður sem varð fyrir skoti í Lundúnum í gær, lést á sjúkrahúsi í dag. Þetta er fyrsta dauðsfallið frá því óeirðirnar hófust síðastliðið laugardagskvöld.

Íslensk kona komst ekki út til að kaupa bleyjur

"Við höfum ekki farið neitt út. Ég á tveggja ára gamlan son og við höfum bara verið að læsa okkur af," segir Anna Margrét Vignisdóttir, ung íslensk kona sem starfar sem fangavörður í Lundúnum. Hún segir að nú í kvöld beri mest á óeirðum í Manchester en í gær hafi verið töluverður órói og eyðilegging í Croydon, hverfinu sem hún sjálf býr í ásamt tveggja ára gömlum syni sínum. Hún segir að það hafi verið gríðarlegir eldar í verslunargötum um 300 metrum frá íbúð hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×