Innlent

Líst vel á sameiningu Öskjuhlíðarskóla og Safamýrarskóla

Mynd/Róbert
„Ég hef ekki orðið vör við óánægju meðal foreldra," segir Lilja Rós Óskarsdóttir, varaformaður Foreldrafélags Öskjuhlíðarskóla, um þá fyrirætlun borgaryfirvalda að sameina starfsemi Safamýrarskóla og Öskjuhlíðarskóla. Tillaga þess efnis var samþykkt í menntaráði í dag og verður henni beint til borgarráðs. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir því að nýr sameinaður sérskóli starfi í húsnæði Öskjuhlíðarskóla og taki til starfa næsta haust.

Lilja segir að sameiningin hafi ekki verið rætt sérstaklega innan foreldrafélagsins. Sjálfri líst henni vel á breytingarnar.

„Þeir nemendur sem eru fyrir í Öskjuhlíðarskóla hafa smám saman orðið svolítið þyngri í umönnun. Upphaflega voru í skólanum fyrst og fremst börn með þroskahömlun en það er langt frá því að vera þannig í dag. Það er meira um að krakkarnir séu líkamlega fatlaðir," segir Lilja.

Aðspurð segir Lilja húsnæði Öskjuhlíðarskóla engan veginn nógu gott, en skólinn var byggður árið 1972. „Húsnæðið er á nokkrum hæðum, það er þröngt og barn síns tíma." Lilja veit ekki til þess að gerðar verðar breytingar á húsnæði Öskjuhlíðarskóla vegna sameiningarinnar, en hún gerir þó ráð fyrir að ráðist verði í einhverjar breytingar.

Í Öskjuhlíðarskóla eru nú 80 nemendur og í Safamýrarskóla 10 nemendur. Búist er við að nemendur Safamýrarskóla verði aðeins 6 á næsta skólaári.

„Með þessum nemendum fylgir starfsfólk sem er mjög þjálfað að annast og kenna þeim sem eru fjölfatlaðir, þannig að það er fengur fyrir skólann," segir Lilja að lokum.


Tengdar fréttir

Öskjuhlíðaskóli og Safamýraskóli sameinaðir

Menntaráð samþykkti á fundi sínum í dag að sameina starfsemi Safamýrarskóla og Öskjuhlíðarskóla. Tillögu þess efnis verður beint til borgarráðs. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir því að nýr sameinaður sérskóli starfi í húsnæði Öskjuhlíðarskóla og taki til starfa næsta haust. Fram að þeim tíma undirbúi starfshópur starfsemi nýja skólans með stefnumótun og verkáætlun sem taki til breytinga á húsnæði, starfsmannahaldi og upplýsingamiðlun til allra hagsmunaaðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×