Innlent

Flutti sömu ræðuna tvisvar - þingmenn endurtóku frammíköllin

Jón Gunnarsson flutti sömu ræðuna tvisvar að sögn Marðar.
Jón Gunnarsson flutti sömu ræðuna tvisvar að sögn Marðar.
„Við sátum þarna og hlustuðum á Jón Gunnarsson þegar ég uppgötvaði skyndilega að ég hafði heyrt þessa ræðu áður,“ segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, en hann segist hafa hlustað á Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, flytja sömu ræðuna tvisvar í umræðum um Stjórnarráð Íslands.

„Það vildi þannig til að ég var með ræðuna útprentaða á borðinu hjá mér,“ útskýrir Mörður en umræðurnar fóru fram um miðnætti síðasta fimmtudag. Þar var mikið rætt um málþóf og þótti Merði málfþófið hafa náð nokkurskonar hámarki í ræðunni hans Jóns.

„Og til þess að hafa hana kórrétta þá las ég einnig upp sömu frammíköll og komu fram þegar hann flutti ræðuna í fyrsta skiptið,“ segir Mörður en fyrir þá sem ekki vita þá eru öllum frammíköllum haldið til haga í ræðum sem haldnar eru á þingi.

Mörður fékk ákúrur frá forseta þingsins vegna frammíkallanna, „við vorum skammaðir fyrir stráksskapinn,“ segir Mörður en þá heyrðist kallað úr þingsal að þarna væri verið að lesa upp úr handriti fáránleikans, og því allt eins hægt að hafa það orðrétt.

Mörður kemur þó Jóni til varnar og segir ræðuna sem hann flutti í annað skiptið hafa verið helmingi styttri en þá sem hann flutti í fyrra skiptið, eða 20 mínútur. Hann segir að öðru leytinu hafi ræðan verið næstum nákvæmlega eins og sú fyrri.

Hart var deilt um frumvarpið en nú hafa þingflokkar komist að samkomulagi um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×