Innlent

Þrjátíu og fjögur brot á dag á þessu ári

mynd úr safni
Fíkniefnabrotum hefur fjölgað um 35 prósent frá árinu 2009, samkvæmt nýrri afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra sem gefin verður út í haust.

Í skýrslunni kemur fram að heildarfjöldi brota árið 2010 er færri en árið á undan og til að mynda hefur umferðarlagabrotum fækkað um rúmlega fimm þúsund frá árinu 2007. Sérrefsilagabrotum fjölgaði hinsvegar um fimm hundruð á milli áranna 2009 og 2010.

Á árinu 2010 voru hegningarlagabrot um þúsund færri en árið áður en fækkunina má rekja til fækkun auðgunarbrota, einkum þjófnaða og innbrota.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að hegningarlagabrotum í ágúst þessu ári hefur fækkað um 8 prósent frá því í júlí síðastliðnum. Samanburður á fjölda brota í ágúst við sama tímabil árið 2010 sýnir að þeim hefur fækkað um 22 prósent.

34 brot á dag á þessu ári

Á þessu ári hafa verið skráð 8164 hegningarlagabrot en smá sveifla er í þróun hegningarlagabrota milli mánaða en að meðaltali hafa þau verið um 34 brot á dag það sem af er ári.

Milli áranna 2010 og 2011 hefur orðið fækkun í öllum helstu brotaflokkum, að undanskildum fíkniefnabrotum en þeim fjölgaði um 19 prósent. Samanburðurinn miðast við sama tímabil, þ.e. frá janúar til ágúst. Mest fækkaði innbrotum eða um 40 prósent og þá fækkaði hraðaksturbrotum um 28 prósent. Minnst fækkaði brotum er falla undir ölvun við akstur, eða um 5 prósent.

Ef fíkniefnabrot eru skoðuð á milli áranna 2009 og 2011 hefur þeim fjölgað um 35 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×