Lífið

Heimili Bonds og Batmans

Ridley Scott er áhugasamur um að taka upp tvær kvikmyndir hér á land: Reykjavik og geimverutryllinn Prometheus. Íslenskt landslag hefur áður verið notað sem leikmynd fyrir Hollywood en þó sjaldnast sem Ísland sjálft.

Fréttablaðið rifjaði upp helstu Hollywood-smellina sem hafa verið teknir upp hér á landi.

Fyrst ber að nefna A View to a kill (1985). Margir Íslendingar ráku upp stór augu þegar bandarískt tökulið tók sér bólfestu við Jökulsárlón og sjálfur James Bond skíðaði niður jökulinn.

Atriðið, sem hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu, var fremur stutt en íslenska þjóðarstoltið fékk eitthvað fyrir sinn snúð. Framleiðandi myndarinnar upplýsti reyndar að flestir leikararnir hefðu verið staðgenglar. Meðal þeirra var snjóbrettafrumkvöðullinn Tom Sims, sem renndi sér af miklu öryggi á Íslandi.

Die Another Day (2002)
Bond á fullri ferð á Jökulsárlóni.
Enn og aftur varð Jökulsárlón fyrir valinu og enn og aftur var James Bond mættur til leiks. Að þessu sinni var það Die Another Day með Pierce Brosnan og Halle Berry.

Og loksins fékk Ísland sinn sess, vondi karlinn með demantsandlitið var nefnilega með íshöll á Íslandi og Bond reyndi að hafa hendur í hári hans. Magnaður bílaeltingaleikur á lóninu stendur upp úr annars slappri Bond-mynd.

Batman Begins (2005)
Batman í þjálfun. Christian Bale og Liam Neeson.
Svínafellsjökull varð fyrir valinu hjá Christopher Nolan þegar hann hugðist kvikmynda upphaf Leðurblökumannsins og stranga þjálfun hans í Tíbet.

Íslenska landslagið varð mun fyrirferðarmeira en menn höfðu búist við og áhorfendur supu hveljur þegar þeir sáu sjálfan Bruce Wayne í æsilegum slag á Íslandi.

Flags of Our Fathers (2006)
Clint stýrði stórum tökuhópi af öryggi í Sandvík.
Stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar. Hátt í þúsund manns fengu vinnu hjá sjálfum Clint Eastwood þegar hann lagði Sandvík undir sig fyrir stríðsmyndina sína.

Íslenskt landslag hefur aldrei verið jafn áberandi í nokkurri kvikmynd. Kvikmyndatímaritið Variety greindi síðan frá því að í þessi fimm ár, 2001-2006, höfðu kvikmyndagerðarmenn frá Hollywood eytt fimm milljörðum íslenskra króna hér á landi.

Hostel II
Bláa lónið naut sín í Hostel II.
Ekki er hægt að ljúka þessari upptalningu án þess að minnast á hryllingsmyndaleikstjórann Eli Roth.

Hann hefur alltaf talað fallega um Ísland, fékk hugmyndina að Cabin Fever hér á landi og lét eina persónu í Hostel I tala íslensku. Bláa lónið í Grindavík fékk að njóta sín í framhaldinu.

Lara Croft: Tomb Raider (2001)
Angelina dvaldist á Íslandi í tvær vikur árið 2001.
Sennilega í fyrsta og eina skiptið sem karlpeningurinn hefur hrópað húrra yfir heimsókn Hollywood-stjörnu.

Angelina Jolie og Daniel Craig komu hingað til lands og dvöldust við Jökulsárlón í tvær vikur. „Þetta er einn minnisstæðasti tími lífs míns," rifjaði Craig upp seinna meir í viðtali við Fréttablaðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.