Innlent

Pétur Blöndal: Gjaldeyrishöftin eins og ópíum

Pétur H. Blöndal
Pétur H. Blöndal
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, líkti gjaldeyrishöftunum við ópíum á þingfundi í dag. Hann lýsir sig andstæðan frumvarpi ríkisstjórnarinnar um framlengingu gjaldeyrishaftanna.

Pétur telur raungildi krónunnar sé þegar svo lágt að það geti ekki lækkað frekar, því séu höftin ónauðsynleg. Hann lagði fram nýja breytingartillögu á frumvarpi ríkisstjórnarinnar í „síðustu tilraun til að fá háttvirta þingmenn til að taka sönsum".

Tillagan gengur út á að öll ákvæði frumvarps stjórnarinnar séu tekin út og í staðin komi eitt ákvæði til bráðabirgða sem veiti Seðlabanka Íslands heimild til að halda gjaldeyrishöftunum til áramóta. Á þeim tíma, þremur mánuðum, eigi stjórnvöld að skapa skilyrði til að mögulegt sé að afnema höftin.

Upphaflega gerði frumvarpið ráð fyrir því að veita Seðlabanka Íslands heimild til að halda gjaldeyrishöftum fram til ársins 2015. Á þingfundi í gær lagði Helgi Hjörvar fram breytingartillögu sem gerir ráð fyrir að heimildin haldist aðeins til ársins 2013. Sú tillaga var í raun málamiðlun eftir langvinnar deilur um frumvarpið í þinginu.

Pétur ætlar sér að greiða atkvæði gegn frumvarpinu og öllum síðari breytingum á því nema sinni eigin breytingu. Hann vonast til að hún hljóti kosningu.

Atkvæði verða greidd um frumvarpið á Alþingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×