Erlent

Uppreisnarmenn ráðast inn í Sirte

Ekki er vitað hvort Gaddafi sjálfur sé staddur í Sirte, en bærinn er eitt síðasta vígi stuðningsmanna hans.
Ekki er vitað hvort Gaddafi sjálfur sé staddur í Sirte, en bærinn er eitt síðasta vígi stuðningsmanna hans.
Uppreisnarmenn í Líbíu réðust inn í fæðingarbæ Gaddafí, Sirte, í morgun. Alla vega 100 bílar sáust keyra inn í bæinn, sem er eitt síðasta vígi stuðningsmanna Gaddafí. Uppreisnarmenn reyna nú að leggja hann undir sig.

Bardaginn um Sirte hófst í gær þegar uppreisnarmenn réðust til atlögu gegn stuðningsmönnum Gaddafi. Eftir mikinn bardaga gærdagsins urðu uppreisnarmenn að hopa fyrir styrkum sveitum Gaddafi og stuðningsmanna. Sjö uppreisnarmenn létust í bardögunum og 31 særðust.

„Við vorum ekki undirbúnir fyrir þetta. Bjuggumst ekki við þvílíkum styrk," sagði talsmaður uppreisnarmanna og hafði orð á því að mögulegt væri að einn sona Gaddafi, Mutassim, hefði skipulagt mótstöðu herliðsins í Sirte. Uppreisnarmenn bjuggust við því að íbúar svæðisins myndu taka þeirra málstað og berjast við hlið þeirra gegn sveitum Gaddafi í gær. Það gerðist hins vegar ekki og uppreisnarmenn urðu að flýja undan bardaganum.

Nú í dag halda þeir aftur til atlögu, enda trúa þeir að þeir séu fleiri og vonast einnig til þess að íbúar Sirte muni í dag snúast á sveif með þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×