Skoðun

Sjálfstæðisflokkurinn aðhyllist ekki forsjárhyggju

Helgi Magnússon skrifar
Innan Sjálfstæðisflokksins eru harðsnúin öfl sem vilja að flokkurinn samþykki að þegar í stað verði hætt við aðildarviðræður Íslands og ESB og umsóknin dregin til baka. Umsókn sem lýðræðislegur meirihluti samþykkti á Alþingi. Ef það yrði niðurstaða Alþingis fæ ég ekki betur séð en að Íslendingar yrðu sér til minnkunar á alþjóðavettvangi og dæmdu sig úr leik sem einangruð utangarðsþjóð.

Ef landsfundur sendir 16 þingmenn flokksins með slíkt veganesti til Alþingis bendir flest til þess að þeim yrði ekkert ágengt. Ríkisstjórnin virðist geta komið sér saman um að halda völdum. Flokkarnir deila um flest annað en að halda valdastólunum. Þetta hefði því væntanlega ekki önnur áhrif en þau að Sjálfstæðisflokkurinn gæti ekki efnt til samstarfs við þá sem vilja ljúka aðildarviðræðunum við ESB og leggja samninginn síðan í dóm þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar. Með því þrengdist staða Sjálfstæðisflokksins að óþörfu. Flokkurinn getur ekki lokað öllum dyrum til samstarfs, ætli hann sér áframhaldandi hlutverk í íslenskum stjórnmálum.

Er flokkurinn búinn að missa áhuga á að hafa áhrif á gang mála í samfélaginu eins og hann hefur gert myndarlega frá upphafi? Er flokkurinn ekki í stjórnmálum til að hafa áhrif og völd eða er það nýja stefnan að vera bara með og taka að sér hlutverk stjórnarandstöðunnar eins og nú er raunin á Alþingi og hjá stærstu sveitarfélögunum, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri? Ekki er langt síðan flokkurinn var forystuafl á öllum þessum stöðum.

Furðu vekur yfirlýsing Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á Sprengisandi um að ekki verði samið um stjórnarmyndun við Samfylkinguna, verði hún formaður, nema Samfylkingin falli frá stefnu sinni í Evrópumálum. Hanna er komin í stjórnarmyndunarviðræður við sjálfa sig hálfu öðru ári fyrir kosningar og hefur þegar sett sér afarkosti!

Sjálfstæðisflokkurinn á að styðja það að landsmenn fái tækifæri til að kjósa um ESB samning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Flokkurinn á að treysta kjósendum enda er hann ekki forsjárhyggjuflokkur. Ég vona að það sé ekki að breytast.




Skoðun

Sjá meira


×