Innlent

Íbúar komi að endurhönnun Hofsvallagötu

Hofsvallagata var til umræðu í gærkvöldi á fjölmennum íbúafundi Hverfisráðs Vesturbæjar í gærkvöldi. Í tilkynningu frá hverfisráðinu segir að fundarmenn hafi verið einhuga um að bílaumferðin á götunni væri of hröð. Hraðinn ógni öryggi gangandi vegfarenda og geri götuna óvistlegri. Þá var bent á að gatan skeri í sundur skóla- og tómstundahverfi og rýrir að mati margra fundarmanna lífsgæðin í hverfinu.

„Hverfisráð Vesturbæjar blés til þessa fundar til að virkja íbúanna til samráðs um það hvernig best væri að breyta götunni, en Jón Gnarr borgarstjóri hefur heitið peningum til framkvæmdanna,“ segir ennfremur.  „Tæplega 100 manns mættu til fundarins og skiptust á skoðunum um hönnun, borgarrými, vistgötur og hraðbrautir. Að loknum fundinum var Hverfisráðinu falið að ræða við hagsmunaaðila í hverfinu, svo sem skóla, íþróttafélög, þjónustustofnanir og fyrirtæki, og að því búnu útbúa forsögn að nýrri hönnun. Annar íbúafundur verður haldinn að loknu samráðsferlinu, þar sem forsögnin verður borin undir íbúa.“

Þá segir að samráðsferlið sé hið fyrsta sinnar tegundar í Reykjavík, þar sem segja má að íbúar hverfisins hanni sjálfir eina megingötu þess.

Gísli Marteinn Baldursson formaður Hverfisráðs Vesturbæjar var mjög ánægður með fundinn: „Þegar um hundrað manns mæta á fund til að ræða um hönnun og fallegt borgarumhverfi, og allar ábendingar eru jákvæðar og uppbyggilegar, þá er ekki annað hægt en að vera ánægður með upphafið að þessu merkilega samráði. Fulltrúar úr öðrum hverfum hafa þegar sett sig í samband við mig og vilja fá uppskriftina að þessu íbúasamráði, því það eru „Hofsvallagötur“ víða í borginni,“ segir Gísli Marteinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×