Erlent

Auglýsingum ætlað að uppræta ofbeldi gegn konum

Auglýsingin sem bar sigur úr býtum.
Auglýsingin sem bar sigur úr býtum.
Hönnuðir frá Danmörku, Kosovo og Frakklandi unnu þrenn helstu verðlaunin í keppni Sameinuðu þjóðanna í Evrópu um bestu auglýsinguna í þágu baráttunnar við að uppræta ofbeldi gegn konum. Íslenski hönnuðurinn Elsa Nielsen komst í hóp þrjátíu bestu. „Ofbeldi er ekki alltaf sýnilegt" eftir danska hönnuðinn Trine Sejthen var besta auglýsingin að mati dómnefndar en „Komdu fram við mig eins og konu" eftir listamanninn Gjoke Gojani frá Kosovo sigraði í kosningu almennings. Þá sigraði Raphaelle Moreau í flokki keppenda undir 25 ára aldri með auglýsinguna „Orð".

Sigurlaunin, 5000 evrur verða afhent í Madríd síðla í nóvember að viðstaddri Hennar Hátign Sofíu Spánardrottningu en Caixa Forum gefur verðlaunin að því er fram kemur í tilkynningu frá Sameinuðu þjóðunum.

Rúmlega 2700 auglýsingar bárust í keppnina frá 40 Evrópulöndum en UNRIC, Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu í Brussel skipulagði keppnina með stuðningi UN Women.

„Markmið keppninnar var að auka vitund um ofbeldi gegn konum en þriðja hver kona í heiminum verður fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni. Sigur-auglýsingin verður birt í fjölmörgum dagblöðum í heiminum þegar keppninni lýkur formlega 25. nóvember á alþjóðlegum baráttudegi fyrir upprætingu ofbeldis gegn konum. Íslenski hönnuðurinn Elsa Nielsen komst í hóp þrjátíu efstu keppenda en allar auglýsingarnar má sjá hér: www.create4theun.eu. Stefán Einarsson, grafískur hönnuður, vann sömu keppni Sameinuðu þjóðanna fyrir ári en þá var hún helguð fátækt í heiminum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×