Enski boltinn

Wilshere meiddist í gær og gæti misst af Hollandsleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere fór snemma af velli í gær.
Jack Wilshere fór snemma af velli í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jack Wilshere haltraði af velli eftir aðeins sjö mínútur í leiknum á móti New York Red Bulls í Emirates-bikarnum í gær. Wilshere fékk högg á ökklann og Arsene Wenger, stjóri Arsenal, býst ekki við honum fyrr en eftir viku.

Arsene Wenger sagði að Jack Wilshere yrði ekki með enska landsliðinu á móti Hollandi 10. ágúst verði hann ekki búinn að ná sér fyrir æfingaleikinn á móti Benfica um næstu helgi.

Það væru slæmar fréttir fyrir Fabio Capello, þjálfara enska landsliðsins, en það er þegar ljóst að Steven Gerrard og Theo Walcott munu missa af leiknum vegna meiðsla.

„Landsleikurinn er 10. ágúst og ég veit ekki hvort hann geti spilað hann. Læknarnir sögðu mér að hann yrði líklega frá í viku. Ef hann nær sér ekki fyrir lok vikunnar mun hann ekki spila á móti Benfica og þá verður hann örugglega ekki með á móti Englandi," sagði Arsene Wenger.

„Hann hefur ekki slitið neitt, þetta er bara bólga og því ekki alvarleg meiðsli. Hann er vanalega fljótur að ná sér og er líka harður af sér. Ég vona að hann nái sér fyrr en læknarnir spá til um," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×