Þúsundir flóttamanna komast ekki yfir landamærin frá Líbíu til Túnis vegna síharðnandi átaka í Líbíu. Utanríkisráðherrar fjölda landa munu ræða ástandið í Genf í dag, á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hilary Clinton, sagði í viðtölum í nótt að hún muni meðal annars ræða um aðgerðir við kollega sína í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Norður Afríku á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu Þjóðanna í Genf í dag.
Þar verður alvarlegt ástand Líbíu rætt en þúsundir flóttamanna hafast við á landamærum Líbíu og Túnis og hírast matarlausir í tjöldum. Flóttamennirnir eru aðallega af egypskum uppruna.
Mótmælendur nálgast síðasta vígi Muammar Gadaffis í höfuðborg landsins, Trípolí, og má búast við hörðum átökum.
Mótmælendur eru þegar búnir að ná borginni Benghazi á sitt vald og hafa stofnað til þjóðarþings. Talið er að yfir þúsund manns hafi verið drepnir í átökunum. Sameinuðu þjóðirnar hafa heitið því að hver sem ber ábyrgð á því að hafa skotið á mótmælendur, verði dregnir fyrir dómstóla.

