Innlent

Í tísku að tala niður Alþingi

„Það er í tísku að tala niður Alþingi og sú gagnrýni sem að stjórnmálastéttinni beinist á að sumu leyti rétt á sér,“ segir þingmaðurinn.
„Það er í tísku að tala niður Alþingi og sú gagnrýni sem að stjórnmálastéttinni beinist á að sumu leyti rétt á sér,“ segir þingmaðurinn. Mynd/Anton Brink
Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir í tísku að tala niður Alþingi. Hann telur þó að sú gagnrýni sem beinist að stjórnmálastéttinni eigi að sumu leyti rétt á sér.

„Hinu vil ég þó halda til að haga að stærstur hluti þingstarfa er gagnlegt umbótastarf sem verður til í prýðilegri sátt milli þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu. Það starf er unnið í nefndum þingsins en því miður ratar það sjaldnast í fjölmiðla, sem hins vegar beina sjónum sínum fyrst og fremst að upphlaupum og málfundatilburðum í þingsal," segir Skúli í pistli á Pressan.is þar sem hann fer yfir nýliðið ár. „Það er á ábyrgð allra þingmanna að leiðrétta þessa mynd karps og áfloga sem þjóðin fær af þinginu í gegnum fjölmiðla, því hún er í grundvallaratriðum villandi og röng."

Skúli segir árið 2010 hafa verið viðburðaríkt og það hafi rammast inn af Icesave deilunni. Árið hafi annars verið ár uppgjörs.

Þá segir Skúli: „Niðurstaðan er sú að stjórnvöldum með fulltingi stjórnarandstöðu, hefur tekist að greiða úr þremur vandasömustu vandamálunum sem tengjast úrvinnslu skuldamála efnahagshrunsins, þ.e. skuldamálum heimila og fyrirtækja og Icesave deilunni."

Mikilvæg verkefni bíða stjórnlagaþings

Mikilvægasta lýðræðisverkefni næsta árs verður stjórnlagaþingið, að mati Skúla. Stjórnlagaþingið sem kemur saman í febrúar fær það verkefni að semja nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina.

„Það er ekkert áhlaupaverk en þar gefst raunverulegt tækifæri til að leiða til lykta gömul réttlætismál eins og jöfnun atkvæðisréttar og afnám úreltrar kjördæmaskipunar sem skiptir þjóðinni í fylkingar höfuðborgar og landsbyggðar. Það er hluti af þeirri átakahefð sem einkennt hefur íslensk stjórnmál að þingmenn hafa í of ríkum mæli skilgreint sig frekar sem varðmenn kjördæmahagsmuna en þjóðarhagsmuna."

Skúli segir að önnur mikilvæg verkefni sem bíði stjórnlagaþings séu meðal annars aðskilnaður ríkis og kirkju og lögfesting á þjóðareign náttúruauðlinda. „Allt eru þetta verkefni sem hafa reynst flokkakerfinu ofviða að leysa, vegna djúpstæðs skoðanaágreinings flokkanna. Ég er stoltur af því að hafa átt þátt í því að Alþingi afsalaði sér hluta af völdum sínum með því að efna til stjórnlagaþings."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×