Innlent

Mörður segir álagsgreiðslur til varaformanna þingnefnda fráleitar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mörður Árnason vill að kjararáð taki ákvörðun um álagsgreiðslur til þingmanna.
Mörður Árnason vill að kjararáð taki ákvörðun um álagsgreiðslur til þingmanna.
Breytingar sem gerðar voru á álagsgreiðslum til þingmanna eru fráleitar, að mati Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Breytingarnar fela í sér að varaformenn þingnefnda fá um 55 þúsund krónur í álagsgreiðslur ofan á þingfararkaupið sem er um 545 þúsund krónur. Annar varaformaður þingnefndar, sem er nýtt embætti sem skipað er í samkvæmt nýjum þingskaparlögum, fær fimm prósent hækkun. Það jafngildir um 27 þúsund krónum.

„Þetta með tíu prósent og fimm prósent er bara kjánaháttur," segir Mörður. Hann segir að ekki sé hægt að flokka störf þingmanna með þessum hætti. Mörður bendir á að þingmaður, sem sé duglegur að eigin frumkvæði, getu lagt meira af mörkum en annar varaformaður þingnefndar. Fyrsti þingmaður kjördæmis eða oddviti stjórnarandstöðunnar í þingnefnd beri ábyrgð sem vegi töluvert meira en að vera annar varaformaður þingnefndar. „Það er ekkert vit í þessu"

Mörður hefur, ásamt Valgerði Bjarnadóttur, flokkssystur sinni, lagt fram frumvarp þess efnis að kjararáð ákveði hvort og þá hvernig greiða eigi álagsgreiðslur til þingmanna. Vilji menn hafa slíkar greiðslur eigi það alls ekki að vera þingmanna að taka ákvörðun um það.




Tengdar fréttir

Þingmenn fengu launahækkun

Allir varaformenn fastanefnda Alþingis fengu 10 prósent, eða um fimmtíu og fimm þúsund króna, launahækkun frá og með síðustu mánaðamótum. Hækkunin leggst ofan á þingfarakaupið sem er 545 þúsund krónur. Launahækkanirnar fengu þeir með sérstökum álagsgreiðslum sem greiddar eru í samræmi við lög um þingfararkaup, en þau lög tóku breytingum um leið og þingsköpum var breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×