Innlent

„Hér ríkir bara sorg“

Starfsfólk gamla St. Jósefsspítala er harmi slegið vegna sameiningarinnar
Starfsfólk gamla St. Jósefsspítala er harmi slegið vegna sameiningarinnar Mynd: GVA
„Fólk er með sorgarbönd og það er flaggað í hálfa stöng," segir Þórunn Káradóttir Hvasshovd. Hún gegndi stöðu yfirgeislafræðings á röntgendeild St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Spítalinn sameinaðist Landspítalanum í dag og er rekinn undir heiti þess síðarnefnda. Þórunn hefur þó enn ekki fengið nýtt stöðuheiti. „Ég veit ekki hvaða titil ég ber nú en ég var yfirgeislafræðingur," segir hún.

Sameining spítalanna er liður í sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar í heilbrigðisþjónustu. Þórunn segir starfsfólk gamla St. Jósefsspítala „Við viljum fá almennileg rök fyrir þessum gjörningi. Þetta er illa undirbúið og illa skipulagt," segir Þórunn.



85. ára aldursár spítalans


Sameiningin hefur legið fyrir í nokkurn tíma og starfsfólk áður lýst óánægju sinni með hana. Tími mótmæla er hins vegar liðinn og nú lýsir starfsfólkið sorg sinni með því að ganga með svarta borða. „Hér ríkir bara sorg. Það er verið að loka spítala á 85. Aldursári. Þessu stórafmæli er fagnað með því að loka spítalanum. Okkur finnst þetta mjög dapurt," segir Þórunn.

St. Jósefsspítali hefur sinnt sjúklingum af öllu landinu á sínum sérsviðum, en á honum hafa starfað sérfræðiteymi á sviðum meltingarfærasjúkdóma, svo dæmi sé tekið.

Deildir gamla spítalans munu flestar flytjast smátt og smátt úr húsnæðinu en gert er ráð fyrir að þar verði áfram vísir að legudeild lyflækninga. Hjúkrunarhemilið Sólvangur var rekið með St. Jósefsspítala en sá rekstur var aðskilinn áður en hann sameinaðist Landspítalanum.

Mögulega tómt hús eftir tvö ár

Þórunn tekur þó fram að ekki sé vitað hversu lengi lyfjadeildin verður í húsnæðinu. „Mögulega verður hún hér bara tímabundið. Það er allt eins útlit fyrir að eftir eitt eða tvö ár verði þetta hús tómt," segir hún.

Starfsfólk gamla St. Jósefsspítala er héðan í frá starfsfólk Landspítalans og sækir margt vinnu á nýjan stað. Það eru þó ekki þau atriði sem mestu máli skipta, segir Þórunn. „Okkur er umhugað um skjólstæðinga okkar og óttumst að þeir fái ekki það utanumhald sem veitt hefur verið á St. Jósefsspítala og sem þeir eiga kröfu á," segir hún.






Tengdar fréttir

St. Jósefs verður Landspítalinn

St. Jósefsspítali í Hafnarfirði sameinast í dag Landspítalanum, samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu. Gert er ráð fyrir því að allir núverandi starfsmenn St. Jósefsspítala verði starfsmenn Landspítalans eftir sameininguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×