Erlent

Faldar myndavélar á snyrtingum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjölmörg dæmi hafa komið upp þar sem faldar myndavélar finnast á snyrtingum hjá Starbucks.
Fjölmörg dæmi hafa komið upp þar sem faldar myndavélar finnast á snyrtingum hjá Starbucks. Mynd/ AFP.
Bandarískur karlmaður hefur stefnt Starbucks kaffihúsakeðjunni vinsælu. Ástæðan er sú að fimm ára gömul dóttir hans fann falda myndatökuvél á snyrtingu á einu kaffihúsanna í Washington.

Maður sem er tuttugu og átta ára gamall og heitir William Yockey, sakar kaffihúsakeðjuna um brot á friðhelgi einkalífsins og vanrækslu við ráðningu og þjálfun starfsfólks. Hann segist hafa verið auðmýktur vegna þessa ógeðslega máls. Hann bendir meðal annars á að ef myndskeið hefði verið tekið upp af dóttur hans hefði verið hægt að dreifa því um allt internetið. Þannig hefði verið brotið gróflega gegn henni.

AFP fréttastofan sem greinir frá málinu segir að ekki hafi verið hægt að ná í talsmenn Starbucks vegna málsins, en blaðið City Paper, sem er gefið út í Washington, segir að fyrirtækið hafi reynt að fá stefnuna fellda niður á þeirri forsendu að Yockey hafi ekki sýnt fram á að starfsmenn Starbucks hafi brotið neitt af sér.

Í maí síðastliðnum handtók lögreglan mann fyrir að hafa tekið myndskeið af fjörtíu konum á Starbucks í Kalíforníu með falinni myndavél. Þá var annar maður handtekinn í júní síðastliðnum fyrir að koma fyrir falinni myndavél á Starbucks í Flórída.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×