Erlent

Lögregluþjónar ákærðir fyrir manndráp af gáleysi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Maðurinn sem lést hét Kelly Thomas. Mál hans hefur vakið mikla athygli.
Maðurinn sem lést hét Kelly Thomas. Mál hans hefur vakið mikla athygli. Mynd/ AFP.
Tveir lögregluþjónar í borginni Fullerton í Kaliforníu gætu átt yfir höfði sér margra ára fangelsi fyrir að hafa orðið geðsjúkum manni að bana með rafbyssu. Mennirnir voru ákærðir í gær.

Grunur leikur á að lögregluþjónarnir hafi gefið manninum, sem var heimilislaus geðklofasjúklingur, rafstuð og lamið hann með rafbyssunni þegar þeir hugðust handtaka hann í júlí síðastliðnum. Lögregluþjónarnir eru báðir ákærðir fyrir manndráp af gáleysi. Maðurinn var fluttur á spítala eftir handtökuna og dó hann af sárum sínum fimm dögum seinna.

Ástæða lögregluofbeldisins mun vera sú að annar lögreglumaðurinn fyrirskipaði manninum að standa kyrr með fætur gleiðar en það gat sá heimilislausi ekki gert og var sífellt á iði. Lögreglumaðurinn reiddist þessu og lamdi hann með áðurgreindum afleiðingum.

Reuters fréttastofan segir að annar lögregluþjónanna geti átt yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsi en hinn allt að fjögurra ára fangelsi.

Umrætt atvik náðist á myndskeið og hefur valdið töluverðri athygli í Fullerton. Meðal annars hefur verið krafist afsagnar lögreglustjórans í borginni og borgarfulltrúa vegna þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×