Erlent

Rússneskur togari að sökkva undan íshellunni við Suðurskautið

Rússneskur togari með 32 skipverja innanborðs er að sökkva undan íshellunni við Suðurskautið. Næstu skip eru í nokkurra daga siglingu frá togaranum.

Togarinn ber nafnið Sparta og hann sendi frá sér neyðarkall síðdegis í gær. Björgunaraðgerðum er stjórnað frá Nýja Sjálandi sem er í um 3.700 kílómetra fjarlægð frá togaranum.

Staðan er verulega slæm og síðustu fregnir frá togaranum herma að einhverjir skipverja séu komnir í björgunarbáta þar sem ekki hefur tekist að stöðva mikinn leka í togaranum. Hallast hann nú um 13 gráður vegna lekans.

Rússneska fréttastofan Interfax segir að togarinn sitji fastur í hafís í Ross hafinu. Næstu skip við togarann eru að reyna að koma honum til aðstoðar en gengur seint vegna hafíssins.

Næsti ísbrjótur er í nokkurra daga siglingu frá togarnum og engar þyrlur eru til staðar sem gætu komið skipverjum til bjargar.

Tracy Brickles sem stjórnar björgunaraðgerðum á Nýja Sjálandi segir að þau séu í stöðugu sambandi við næstu skip. Ekki er talið líklegt að skipin ná til togarans áður en hann sekkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×