Innlent

Segir farsælast að hafa opinn leigupott við hlið nýtingarsamninga

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í NV-Kjördæmi.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í NV-Kjördæmi.
Farsælast er að hverfa með öllu frá hugmyndum um byggða- og ívilnunarpotta við úthlutun byggðakvóta í nýju fiskveiðistjórnunarfrumvarpi. Þá er rétt að lögskylda útgerðir til að bjóða allan óunninn fisk á innlendan markað. Þetta segir Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður, en nýtt frumvarp verður lagt fram á vorþingi.

Stærra kvótafrumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var gagnrýnt harkalega fyrr á þessu ári. Viðbrögðin voru það neikvæð að utanríkisráðherra sagði í Kastljósviðtali í síðustu viku að framlagning frumvarpsins hefði verið eins og að lenda í „bílslysi."

Skipuð var sérstök ráðherranefnd um fiskveiðistjórnun til að vinna málið áfram, en hana skipa Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG og menntamálaráðherra og Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, ásamt Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, er einn fjögurra þingmanna sem eru nefndinni innan handar. Hún segir í grein í Fréttablaðinu í dag að stefnt sé að því að leggja fram nýtt og betra frumvarp fljótlega á vorþingi.

Leigupottur ríkisins sem allir geta sótt í

Í tillögum sem Ólína og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, sendu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í lok sumars var lagt til að heppilegast væri að fara blandaða leið í frumvarpi um fiskveiðistjórnun, þ.e að hægt væri að bjóða nýtingarsamninga ásamt því að nægjanlegt framboð aflaheimilda væri í sérstökum leigupotti ríkisins.

Eitt þeirra atriða sem gagnrýnt var í eldra frumvarpi var leið byggðapotta þar sem heimildum var ráðstafað með ráðherraíhlutun til einstakra fyrirtækja og svæða. Ólína segir að farsælast sé að hverfa með öllu frá þessum hugmyndum.

„Ef við ætlum að búa svo um hnúta, sem við ætlum að gera samkvæmt stefnu beggja stjórnarflokkanna, að nýting auðlindarinnar sé þjóðhagslega hagkvæm, sem hún þyrfti að vera í mun ríkari mæli, þarf þetta að byggja á almennum leikreglum. Ekki forréttindaúthlutun til fárra eða pólitískum afskiptum eða hentistefnu hverju sinni. Þess vegna tel ég að það væri lang farsælast, ef við ætlum að fara þessa samningaleið, þ.e að binda hluta aflaheimildanna í nýtingarsamninga til 15 ára annars vegar og hafa til hliðar við það úthlutun til skemmri tíma, þá væri það farsælast að hafa einn leigupott við hlið nýtingarsamninga sem væri opinn öllum," segir Ólína.

Vill skylda fyrirtækin með lögum til að selja aflann heima

Í áðurnefndum tillögum Ólínu og Lilju Rafneyjar var jafnframt lagt til að útgerðarfyrirtæki yrðu lögskylduð til að bjóða allan óunninn fisk á innlendan markað og að skilið yrði milli veiða og vinnslu. Með þessu væri hægt að skapa um eitt þúsund störf.

Er ekki hættulegt að setja þessa skyldu í lög, er ekki best að framleiðendur taki þessar ákvarðanir sjálfir og láti lögmál markaðarins ráða? „Markaðurinn á að vera þjónn en ekki herra. (...) Ef það er tryggt að allur afli verði boðinn upp á innlendum markaði þá t.d sitja allir í fiskvinnslu í landi við sama borð og markaðslögmálin nýtast ágætlega hér innanlands. Það er í raun verið að skekkja markaðsaðstæður með því fyrirkomulagi sem nú er. Þetta hefur lengi verið baráttumál Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda og þeir fagna t.d þessari áherslu, en ég tek það líka fram að þetta er eitt af því sem er í stefnuskrá beggja stjórnarflokka og þetta ætti því ekki að koma flatt upp á neinn að við leggjum þetta til," segir Ólína Þorvarðardóttir. thorbjorn@365.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×