Lífið

Ívar Hauksson: Bestur í öllu

Ívar er PGA-golfkennari við fimm stjörnu golfparadísina Fairplay Golf Hotel & Spa á Costa de la Luz í Andalúsíu.
Ívar er PGA-golfkennari við fimm stjörnu golfparadísina Fairplay Golf Hotel & Spa á Costa de la Luz í Andalúsíu.
„Líf mitt á Spáni er draumur í dós. Það eru forréttindi að geta unnið við það sem manni þykir skemmtilegast," segir Ívar, sem er mörgum ógleymanlegur fyrir að hafa unnið allt sem hann unnið gat á sviði íþrótta, karlmennsku og fegurðar hér áður.

Ívar hefur verið búsettur á Spáni síðastliðin fimmtán ár.

„Það kom af sjálfu sér að ég flytti utan. Ég hafði lagt það í vana minn að lengja golftímabilið heima með því að fara á spænska golfvelli um vor og haust, en þegar að heimferð kom langaði mig aldrei til baka. Þegar ég velti þessum örlögum fyrir mér rifjast upp sumarfrí fjölskyldunnar á Benidorm þegar ég var ellefu ára og tilkynnti mömmu á svölum hótelsins að hér ætlaði ég að búa í framtíðinni. Þá sagði amma mér að aftur í ættum rynni spænskt blóð, sem kemur heim og saman við suðrænt útlit okkar margra og þrá mína eftir Spáni."

Ívar er PGA-golfkennari við fimm stjörnu golfparadísina Fairplay Golf Hotel & Spa á Costa de la Luz í Andalúsíu. Staðurinn hefur margoft hlotið viðurkenninguna World Leading Golf Resort.

„Þetta er ævintýraheimur og dálítið mikið öðruvísi en Íslendingar eiga að venjast. Hingað kemur fólk í þyrlum til að spila golf og mikið um fræga stjórnmálamenn og stórstjörnur á borð við Shakiru og fleiri," segir Ívar, sem býr í lúxusvillu við golfvöllinn og er á góðum stað í lífinu.

„Ég eignaðist hjarta spænskrar senjórítu fyrir tólf árum en hef ekki enn kvænst henni. Ég hef séð of mörg hjónabönd fara í vaskinn til að trúa á hjónabandið og held að ástin haldi fólki saman frekar en hjúskaparsáttmáli og gullhringar. Ég er heldur ekki tilbúinn að skrifa undir samning um að ég ætli að vera með sömu konunni það sem eftir er ævinnar," segir Ívar stríðnislega, en með Önu konu sinni á hann dæturnar Raquel, 8 ára, og Melanie, 3ja ára.

„Á Íslandi á ég líka dæturnar Írisi Tönju og Ornellu, og afastrákinn Aron Þór. Ég sakna ekki íslensks þjóðfélags, en ég sakna fjölskyldu minnar og vina. Hins vegar á ég í miklu nánara sambandi við ástvini mína eigandi heima á Spáni en á Íslandi. Þeir koma oft til mín og vitaskuld er miklu meira ævintýri fyrir þá að koma hingað en fyrir mig að fara heim."

Versnar með aldrinum
Ívar með golfsettið.
Ívar opnaði nýlega Ping-„fitting center" þar sem hann smíðar golfkylfur sem sniðnar eru að persónulegum þörfum. Það hefur vakið mikla athygli og þykir það fullkomnasta á Spáni.

„Ég hef alltaf verið yfirmáta kappsamur, metnaðarfullur og með óstöðvandi fullkomnunaráráttu, sem versnar bara með aldrinum. Ég þarf alltaf að gera allt best," segir hann hlæjandi og víst er að störf Ívars eru upp á tíu því golfrisinn Ping verðlaunaði hann með því að gefa honum fokdýran útbúnaðinn.

„Það lá alltaf fyrir að ég endaði í golfi. Ég hef spilað golf í 42 ár, eða síðan ég fékk fyrstu golfkylfuna í hausinn hjá ömmu og afa í Smálöndum þriggja ára. Þá var ég nánast stimplaður með golfkylfu númer 5 og fljótlega sagaði afi kylfu númer 9 í mína hæð og slípaði fyrir mig grjót í golfbolta. Eftir það stóð ég klukkustundum saman ofan á hitaveitustokk við hús þeirra og barði grjótið miskunnarlaust þar til ég náði að slá það yfir nærliggjandi veg," segir Ívar, sem eldri varð oftsinnis Reykjavíkurmeistari, stigameistari Íslands, Íslandsmeistari og keppti með landsliðinu í golfi.

„Ég hef verið íþróttamaður alla ævi, lyfti enn lóðum til að halda mér í formi og er þess utan með einkaþjálfun fyrir hótelgesti. Þá keppi ég á spænskum golfmótum og hefur gengið vel hingað til, en mikill munur er á mótunum hér og heima. Því er óraunhæft að stefna á Spánarmeistaratitil eins og er, enda mikil atvinnumennska sem fylgir slíku. Mér finnst mikilvægt að viðhalda ánægjunni við að spila, en kannski reyni ég seinna við þann titil í eldri flokkum," segir Ívar og telur sig trúlega orðinn meiri Spánverja en Íslending.



Besti vinur í heimi

„Ég hef aðlagast glaðsinna og afslöppuðu andrúmslofti spænsks samfélags. Lífsviðhorf Spánverja er svo ólíkt því íslenska. Sé skólafrí á fimmtudegi er hiklaust gefið frí á föstudegi líka, enda sagði skólastjóri við mig: „Ég get lofað þér Ívar, að það verður enginn fábjáni af því að taka sér frídag."

Umhverfið er áreitislaust og Spánverjum slétt sama um hluti sem eru Íslendingum hjartans mál. Þeir vilja frekar góða tónlist yfir sælkeramat á trékolli en sötra úr kristalsglasi í leðurstól. Ég hef því lært mikið af þeim og Íslendingar mættu taka þá sér til fyrirmyndar," segir Ívar, sem mörgum hraus hugur við að mæta í myrkri á árum áður.

„Ég hef alltaf verið skapmikill en það er gott að hafa skap ef maður kann að stjórna því. Þeir sem þekkja mig hafa aldrei skilið hvernig fólk gat verið hrætt við mig, en vitaskuld var ljóst að ég var enginn ballettdansari þegar það mætti mér með kolsvart hár og 120 kíló af vöðvum í hlýrabol. Ég hef sjálfsöruggt fas sem hefur ekkert breyst, en undir vöðvunum er ég ljúfur sem lamb og drep aldrei flugur," segir Ívar hlæjandi og Jóhannes Ármannsson, vinur Ívars úr Borgarnesi, tekur við símtólinu á Spáni:

„Betri vin en Ívar Hauksson er ekki hægt að eiga. Hann er hlýr, góður og traustari en allt; lifandi, skemmtilegur og umtalaður á Spáni fyrir fagmennsku og ljúfan karakter."

thordis@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.