Íslenski landsliðsmaðurinn í körfuknattleik, Pavel Ermolinskij, hefur samið við sænska meistaraliðið Sundsvall Dragons til eins árs og mun hann leika með liðinu á næstu leiktíð. Pavel verður þriðji íslenski leikmaðurinn hjá félaginu.
Pavel var lykilmaður með Íslandsmeistaraliði KR á síðustu leiktíð og var hann valinn besti leikmaður Íslandsmótsins.
Á heimasíðu Sundsvall Dragons kemur fram að Pavel sé einstaklega fjölhæfur leikmaður og mikil ánægja sé með nýja liðstyrkinn. Þá er minnst á að hann sé í landsliðshópi Íslendinga sem mæti til Sundsvall síðar í mánuðinum á Norðurlandamótið. Leikir mótsins fara fram á heimavelli Drekanna.
Þrír íslenskir landsliðsmenn munu því leika með Sundsvall á næstu leiktíð, en Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson verða áfram hjá félaginu en þeir voru lykilmenn liðsins á síðustu leiktíð.
Þjálfari Sundsvall er Peter Öqvist nýráðinn þjálfari karlaliðs Íslands í körfuknattleik.
Pavel Ermolinskij gengur til liðs við Sundsvall
