Innlent

Yfirlýsingar Jóhönnu ætlaðar til heimabrúks

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG. Hann átti sæti í sáttanefnd ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnunarkerfið.
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG. Hann átti sæti í sáttanefnd ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnunarkerfið. Mynd/GVA

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, segir að forsætisráðherra hafi venju samkvæmt hnýtt í VG á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar í gær. Hann segist gera sér grein fyrir að slíkur málflutningur sé meira „ætlaður til heimabrúks en annars svo ég læt það ekki pirra mig að neinu marki." Yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur virðast þó eitthvað pirra Björn Val því í pistli á heimasíðu sinni sendir hann Samfylkingunni væna sneið vegna ályktunar flokksins um sjávarútvegsmál. Björn Valur segir að leið flokksins feli í sér upplausn og gjaldþrot.

Kvótinn verði innkallaður

Um ríkisstjórnarsamstarfið sagði Jóhanna meðal annars að þeir stjórnarliðar sem líti á stjórnarsáttmálann sem plagg sem ekki þurfi að taka mark á væru að leika sér að eldinum. Jafnframt sagði hún óróleika innan VG hafa skaðað ríkisstjórnarsamstarfið og dregið úr trúverðugleika ríkisstjórnarinnar.

Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem flokksstjórnin beinir því til Jóhönnu að hún beiti sér á Alþingi fyrir því að samstaða náist um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um að aflaheimildir verði innkallaðar t.d. á 20 árum og að heimildirnar verði boðaðar til endurúthlutunar gegn gjaldi.

Segir leið Samfylkingarinnar leiða til gjaldþrota

„Allt er þetta gott og gilt," segir Björn Valur og bætir við: „Sjálfur hélt ég að ný fiskveiðistjórn yrði mótuð á þeim niðurstöðum sem Sáttanefnd ríkisstjórnarinnar komst að á síðasta ári enda var það markmið hennar að móta tillögur í þeim efnum."

Þá segir þingmaðurinn að í bókun fulltrúa stjórnarflokkanna í umræddri nefnd komi fram að ekki hafi verið stuðningur við það í nefndinni að fara þá leið sem Samfylkingin leggi nú til að kosið verði um í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þau gögn sem nefndin aflaði sér um málið benda til þess að innköllunarleið Samfylkingarinnar muni leiða til mikillar upplausnar og gjaldþrota í sjávarútvegi og valda miklum usla í íslensku efnahagslífi," segir Björn Valur.

Fulltrúar stjórnarflokkana hafi því lagt til að farin verði önnur leið að sama marki sem skapi sjávarútveginum góðan rekstrargrunn til langs tíma gegn tilteknum ströngum skilyrðum og gjaldi fyrir nýtingarréttinn.

Spurning fyrir kjósendur

Björn Valur segir að í þessu ljósi megi ætla að ef af þjóðaratkvæðagreiðslu yrði eins og flokksráð Samfylkingarinnar leggi til gæti spurningin sem lögð yrði fyrir kjósendur hljómað með eftirfarandi hætti:

„Samkvæmt niðurstöðum nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða (Sáttanefndar) gæti fyrning aflaheimilda á 20 árum, líkt og Samfylkingin leggur til að gert verði, leitt til fjöldagjaldþrots í sjávarútvegi um land allt. Ertu fylgjandi eða andvíg/ur þeirri leið?"






Tengdar fréttir

Óskynsamlegt að hræra í innyflum annarra

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, segir óskynsamlegt að formenn flokka séu að blanda sér í innri flokksmál hvor hjá öðrum. Ekki eigi að „hræra í innyflum hvers annars.“

Órólega deildin leikur sér að eldinum

Þeir stjórnarliðar sem líta á stjórnarsáttmálann sem plagg sem ekki þurfi að taka mark á eru að leika sér að eldinum, að mati Jóhannu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Hún segir óróleika innan VG hafa skaðað ríkisstjórnarsamstarfið og dregið úr trúverðugleika ríkisstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×