Enski boltinn

Charlie Adam orðaður við Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Charlie Adam fagnar marki í leik með Blackpool.
Charlie Adam fagnar marki í leik með Blackpool. Nordic Photos / Getty Images

Liverpool hefur bæst í hóp þeirra liða sem hafa áhuga á að fá miðvallarleikmann Blackpool, hinn skoska Charlie Adam, í sínar raðir samkvæmt heimildum fréttavefs Sky Sports.

Blackpool hefur þegar hafnað tilboðum frá Aston Villa og Birmingham í kappann en Adam hefur staðið sig afar vel með Blackpool í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Blackpool er nýliði í deildinni en hefur komið á óvart og er nú í þrettánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 25 stig, jafn mörg og Liverpool. Þessi lið mætast einmitt í frestuðum leik úr 19. umferð deildarinnar í kvöld.

Kenny Dalglish tók við stjórn Liverpool eftir að Roy Hodgson var rekinn um helgina. Hann hefur viðurkennt að hann hafi hug á því að styrkja liðið nú í janúar.

Adam á átján mánuði eftir af samningi sínum við Blackpool en Ian Holloway, stjóri liðsins, hefur lítinn áhuga á að missa kappann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×