Innlent

Tæp 85% vilja heimila staðgöngumæðrun

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill heimila staðgöngumæðrun á Íslandi. Meirihlutinn vill þó  að hún sé aðeins leyfð í velgjörðarskyni. Vinnu­hópur telur lögleiðingu ótímabæra á þessu stigi.
Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill heimila staðgöngumæðrun á Íslandi. Meirihlutinn vill þó að hún sé aðeins leyfð í velgjörðarskyni. Vinnu­hópur telur lögleiðingu ótímabæra á þessu stigi.

Mikill meirihluti landsmanna vill að heimilt verði að nýta sér þjónustu staðgöngumæðra hér á landi, samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins.

Alls vilja tæplega 24 prósent leyfa staðgöngumæðrun án skilyrða, samkvæmt könnuninni. Ríflega 61 prósent til viðbótar vill leyfa staðgöngumæðrun, en aðeins í velgjörðar­skyni.

Samtals vilja því um 85 prósent landsmanna breyta ákvæðum laga þar sem lagt er bann við staðgöngumæðrun hér á landi. Alls vilja um fimmtán prósent þeirra sem afstöðu tóku að staðgöngumæðrun verði áfram bönnuð.

Heldur fleiri konur en karlar vilja leyfa staðgöngumæðrun, og yngra fólk er talsvert líklegra en þeir sem eldri eru til að vilja leyfa staðgöngumæðrun.



Starfshópur um staðgöngu­mæðrun, sem þáverandi heilbrigðis­ráðherra setti á laggirnar í janúar 2009, komst að þeirri niðurstöðu að enn væri of mörgum spurningum ósvarað og taldi ótímabært að heimila staðgöngumæðrun hér á landi.

Enn fremur mæltist hópurinn til þess að litið sé til nágrannalanda til samanburðar, en staðgöngu­mæðrun er ólögleg í öllum Norðurlandaríkjunum.

Dr. Reynir Tómas Geirsson, verndari Staðgöngu, segir að þó svo að slíkar leiðir í tæknifrjóvgun yrðu leyfðar myndu einungis ör­fáar konur nýta sér úrræðið. Nýjar rannsóknir í legígræðslum bendi einnig til þess að þær verði framkvæmanlegar á þessu ári og muni það breyta miklu hvað varðar frjósemisvandamál þeirra kvenna sem annars myndu nýta sér staðgöngumæðrun. Hann fullyrðir einnig að fleiri íslensk hjón en þau sem eru nú stödd á Indlandi hafi nýtt sér þjónustu staðgöngumæðra. - bj, sv /




Fleiri fréttir

Sjá meira


×