Skoðun

"Útrýming kjördæmapotara“

Jón Kristjánsson skrifar
Ég sá fyrirsögn í Fréttablaðinu um að Fjárlaganefnd Alþingis hefði útrýmt kjördæmapoti. Þessari fyrirsögn var fylgt eftir með velþóknun í forystugrein blaðsins og skrifum dálkahöfunda. Tilefnið var að ákvörðun var tekin um það í nefndinni að hætta úthlutun svokallaðra „safnliða" og ákveða aðeins heildarupphæðina og framselja skiptinguna til ráðuneytanna og annarra sem málið varðar.

Ég sat fyrir einum áratug í Fjárlaganefnd Alþingis og tók þátt í þessari úthlutun á sínum tíma. Ég get tekið það fram strax að mér finnst þetta skynsamleg ráðstöfun.

Á tíunda áratugnum voru tekin skref til breytinga, án þess að ganga alla leið. Ein af þeim var sú að fela fagnefndum þingsins að gera tillögur um skiptingu til einstakra málaflokka, og einnig var það tekið upp að gera samninga um menningarmál við landshlutasamtök sem sáu síðan um úthlutun styrkja. Hluta þessara safnliða var úthlutað af viðkomandi ráðuneytum. Nú hefur skrefið verið stigið til fulls og vonandi gengur þetta nýja fyrirkomulag vel og verður til farsældar menningarmálum í víðasta skilningi.

Þetta hefur hins vegar vakið upp umræðu um kjördæmapot og fullyrðingar um að þingmenn kæmu færandi hendi heim í kjördæmi sín með fulla vasa af peningum handa vinum sínum og öðrum sem eru að vinna að málum. Þetta er angi af þeirri umræðu sem verið hefur uppi um langan tíma að öll barátta einstakra þingmanna fyrir kjördæmi sín er kölluð kjördæmapot og einkum eru það landsbyggðarþingmenn sem hafa fengið þessa nafngift.

Mér hefur alltaf fundist þessi umræða helgast af því að verið sé að tala niður til kjósenda. Þeir hugsi ekki heila hugsun um stjórnmál aðra en þá að kjósa þá sem færi þeim fjármuni til afmarkaðra áhugamála sinna, ekkert annað komist að. Hafi einhverjir „kjördæmapotarar" á Alþingi verið þessarar skoðunar held ég að þessi þáttur sé afar ofmetinn svo ekki sé meira sagt. Kjósendur eru ekki eins miklir sérhagsmunamenn og margir halda. Það er afstætt hvað kallað er „kjördæmapot". Er það kjördæmapot að halda fram hagsmunum lykilstofnana í sínu kjördæmi svo sem heilbrigðisstofnana, skóla, sveitarfélaga eða berjast fyrir umbótum í atvinnumálum og samgöngumálum svo eitthvað sé nefnt? Ég áleit þetta skyldu mína á þeim tíma sem ég var á Alþingi og varð ekki var við annað en að það væri þetta sem brann á fólki, ásamt fjölmörgum almennum málum.

Það væri óskandi að þingmenn sem hafa gott jarðsamband og vilja berjast fyrir hagsmunamálum kjördæma sinna verði meðhöndlaðir með ofurlítið minni alhæfingum en verið hefur.




Skoðun

Sjá meira


×