Enski boltinn

Villas-Boas gagnrýndi enska fjölmiðla harkalega eftir leikinn í gær

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea.
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Andre Villas-Boas segir að Chelsea hafi mátt þola afar ósanngjarna gagnrýni og umfjöllun í enskum fjölmiðlum að undanförnu. Hann lét sterk orð falla eftir 3-0 sigur sinna manna á Valencia í Meistaradeild Evrópu í gær.

Með sigrinum komst liðið áfram í 16-liða úrslitin og þar sem að Leverkusen mistókst að vinna sinn leik í gær náði Chelsea einnig að tryggja sér sigurinn í riðlinum. Fyrir leikinn var hætta á því að Chelsea myndi ekki einu sinni komast áfram.

Hann sagði í sjónvarpsviðtölum strax eftir leik að úrslitin væri sem köld vatnsgusa í andlit gagnrýnenda liðsins. Hann hélt svo áfram á blaðamannafundi eftir leik og bar þá saman umfjöllun fjölmiðla um Chelsea annars vegar og Manchester City hins vegar.

City á í harðri baráttu um sæti í 16-liða úrslitunum í sínum riðli og óvíst hvort að liðinu dugir sigur á Bayern München í kvöld.

„Ég vona að þeir komist áfram, svo sannarlega,“ sagði Villas-Boas. „En fjölmiðlar segja að ef þeir komast áfram, þá komast þeir áfram. Ef ekki, þá ekki. Þið fjölmiðlamenn sýnið okkur ekki sama viðhorf.“

„Til dæmis má nefna það sem fyrrum varnarmaður Manchester United (Gary Neville) sagði fyrir leikinn í kvöld. Han sagði að hann hefði ekki viljað vera leikmaður Chelsea og að hann myndi ekki getað spilað þennan leik. Og að þetta væri erfitt fyrir þá,“ lýsti Villas-Boas.

„Þetta er alveg ótrúlegt. Ég átti bágt með að trúa þessu. Það er verið að ofsækja Chelsea og nálgunin fjandsamleg. Við erum skotmark ykkar og eru það hlutskipti sem við sættum okkur við.“

„En þið verðið að sætta ykkur við að sigurinn í dag var frábær. Og því miður fyrir ykkur þá þurfið þið á morgun að fjalla um þennan frábæra sigur hjá Chelsea og að við komumst áfram sem sigurvegari riðilsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×