Sport

Enn eitt kynþáttaníðsmálið komið upp í Englandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Daniel Sturridge fagnar marki í leik með Chelsea.
Daniel Sturridge fagnar marki í leik með Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur hafið rannsókn á ásökunum um að einn stuðningsmanna félagsins hafi beitt sóknarmanninn Daniel Sturridge kynþáttaníði í leik liðsins gegn Genk í Meistaradeild Evrópu á dögunum.

Sturridge verður væntanlega í byrjunarliði Englands í vináttulandsleiknum gegn Svíþjóð á Wembley í kvöld.

Framkvæmdarstjóri Chelsea, Ron Gourlay, fékk ábendinguna um að stuðningsmaðurinn hafi notað niðrandi orðalag um Sturridge í tölvupósti frá öðrum stuðningsmanni sem varð vitni að atvikinu.

„Við tökum þessa kvörtun mjög alvarlega,“ sagði Gourlay í samtali við enska fjölmiðla. „Málið er í rannsókn og höfum við leitað eftir samstarfi við lögregluna.“

„Kynþáttaníð af nokkru tagi munum við ekki líða og hvetjum við stuðningsmenn okkar að benda á þá sem gera sig seka um slíka hegðun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×