Innlent

Iðnaðarráðherra: Alcoa einnig áhugalausir

Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, gaf til kynna að áhugaleysi Alcoa hefði einnig orðið til þess að fyrirtækið ákvað að byggja ekki álver á Bakka nærri Húsavík í sérstökum umræðum um málið á Alþingi í dag.

Þar gagnrýndi Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hlut ríkisstjórnarinnar og sakaði ríkisstjórnina um að hafa beitt sér pólitískt gegn uppbyggingu álversins. Hann sagði þúsund störf hefðu tapast vegna afstöðu ríkistjórnarinnar.

Katrín spurði á móti hvers vegna Alcoa hefði aldrei sótt um lóð á Bakka. Þá spurði hún hversvegna Alcoa hafi aldrei hafið formlegar viðræður um orkukaup og að auki hversvegna ekkert væri minnst á breyttar fyriráætlanir fyrirtækisins á heimasíðu fyrirtækisins.

„Alvaran var ekki jafn mikil og væntingar voru gefnar norður,“ sagði Katrín.

Hún benti ennfremur á að tvö fyrirtæki hefðu sótt um lóð á Bakka og fimm fyrirtæki ættu í viðræðum við Landsvirkjun um uppbyggingu á svæðinu. Þar af er eitt álfyrirtæki, sem telur sig geta nýtt þau 200 megawött sem standa til boða.

Katrín hafnaði alfarið pólitískum afskiptum af ferlinu. Þannig benti hún á að Landsvirkjun hefði ekki verið hluti af viljayfirlýsingu sem var gerð árið 2008 við Alcoa. Þá var Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunnar og enginn Steingrímur J. Sigfússon, í fjármálaráðuneytinu.

„Við verðum að fylkja okkur á bak við fyrirtækin sem hafa sýnt áhuga en ekki sýna þeim löngutöng og láta eins og þau séu ekki til,“ sagði Katrín að lokum.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók svo til máls og sagði það ljóst að vilji ríkisstjórnarinnar gagnvart uppbyggingu stóriðju, væri afar takmarkaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×