Innlent

Byssumaður handtekinn í Þorlákshöfn

Þorlákshöfn
Þorlákshöfn
Maður sem hleypti af skoti eða skotum gaf sig fram í Þorlákshöfn í nótt eftir að sérþjálfaður samningamaður frá lögreglunni spjallaði við hann í síma.

Klukkan rúmlega fjögur í nótt barst lögreglunni á Selfossi tilkynning um að skoti eða skotum hafi verið hleypt af við heimili í Þorlákshöfn. Lögreglumenn, ásamt sérsveitarmönnum frá ríkislögreglustjóra, fóru á vettvang og um klukkan korter í fimm kom maðurinn sjálfviljugur út úr húsinu og gaf sig fram eftir að hafa rætt við sérþjálfaðan samningamann lögreglu í síma.

Maðurinn, sem er á fertugsaldri, er grunaður um að hafa hleypt af skoti eða skotum á eða við heimili sitt en í tilkynningu frá lögreglu segir að óljóst sé um tilgang þess. Hann hafði skorið sig eða skrámað sjálfan sig með hnífi en hann var einn í húsinu í nótt og enginn slasaðist.

Maðurinn var færður í fangageymslu og verður yfirheyrður síðar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×