Innlent

Yfirvofandi læknaskortur áhyggjuefni

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þorbjörn Jónsson, nýkjörinn formaður Læknafélags Íslands
Þorbjörn Jónsson, nýkjörinn formaður Læknafélags Íslands
Nýkjörinn formaður Læknafélags Íslands segir yfirvofandi læknaskort áhyggjuefni en læknum hefur fækkað um 10% á síðustu þremur árum.

Aðalfundur Læknafélags Íslands var haldinn fyrir helgi. Þorbjörn Jónsson er nýr formaður félagsins. Hann segir sífellt fleiri læknar kjósa að starfa frekar erlendis en hér á landi. Læknum hafi fækkað um 10% síðustu þrjú ár og ástæða sé til að hafa áhyggjur af þróuninni.

„Læknum hefur farið fækkandi á Íslandi undanfarin ár. Það er bæði vegna þess að kjör lækna eru orðin töluvert lakari hér á landi heldur en erlendis og eins er starfsaðstaða víða bágborin," segir Þorbjörn.

Færri læknar koma koma úr sérfræðinámum en áður sem hefur töluverð áhrif.

„Meðalaldur lækna er líka að verða vandamál vegna þess að meðalaldur sérfræðilækna á Íslandi er farinn að nálgast 55 ár. Það er ansi hár aldur því það er líka á þeim aldri, sem að samkvæmt kjarasamningum lækna, þá mega þeir hætta að taka vaktir. Ef að læknar í stórum stíl nýttu sér þetta ákvæði þá myndu auðvitað skapast vandræði. "

Læknar óttast áhrifin á þá heilbrigiðisþjónustu sem veitt er.

„Það er ljóst mál að þegar læknum fækkar þá er álag vaxandi og þá er auðvitað hætta á mistökum og annað slíkt. Það er ljóst mál að þetta kemur til með að hafa áhrif á þjónustuna. Hún verður bæði verri og öryggi fer minnkandi,“ segir Þorbjörn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×