Innlent

Fyrstu frjálsu kosningarnar í Túnis

Frá Túnis
Frá Túnis mynd/afp
Í dag fara fram fyrstu frjálsu kosningarnar í Túnis, níu mánuðum eftir að uppreisn steypti stjórn fyrrverandi forseta lands Zinedine el Abidine Ben Ali af stóli.

Túnisar flykktust á kjörstaði í  morgun en kosningarnar eru þær fyrstu sem fram fara í Arabalöndunum eftir lýðræðisbyltingu  sem hófst einmitt með mótmælum í Túnis og dreifðist síðan til annarra Arabalanda svo sem Egyptalands og Líbíu.

Kosið er um tvöhundruð og sautján sæti í eins konar stjórnlagaþingi sem einnig mun skipa bráðabirgðastjórn landsins. Sjö og hálf milljón íbúa landsins eru á kosningaaldri en einungis tæpar fjórar og hálf á kjörskrá. Áttatíu stjórnmálaflokkar eru í framboði en talið er að flokkur íslamista, Ennahda, muni fá flest atkvæði en ekki er víst að hann hljóti meirihluta. Hörð átök hafa verið í kosningabaráttunni en vonast er til að kosningarnar í dag verði árangursríkar til að þær geti verið nágrannaþjóðum Túnis innblástur, til dæmis Líbíu.

Ben Ali var hrakinn frá völdum og flúði til Saudí Arabíu 14. janúar síðastliðinn eftir margra vikna mótmæli í Túnis. Á þeim mánuðum sem liðið hafa síðan hefur efnahagur Túnis versnað þar sem bæði kaupsýslumenn og túristar halda sig í burtu frá landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×