Innlent

Situr í tælensku fangelsi - er að fyllast af vatni og föngum

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Móðir Brynjars Mettinisonar, sem situr í gæsluvarðhaldi í Tælandi, segir hræðilegt að hugsa til sonar síns sem situr í fangelsi sem brátt fyllist af vatni. Eitt mesta flóð í sögu Tælands hefur sett samfélagið þar úr skorðum.

Um þriðjungur af Tælandi er nú undir vatni eftir mestu flóð í landinu á síðustu 50 árum. Að minnsta kosti 350 manns hafa farist í flóðunum í Tælandi og margar milljónir af íbúum landsins hafa neyðst til þess að flýja heimili sín. Þá hafa hrísgrjónaakrar landsins orðið fyrir verulegum skemmdum og Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna telur að alvarlegur matarskortur muni hrjá Tælendinga á næstunni vegna þess.

Brynjar Mettinisson situr nú í gæsluvarðhaldi í Bangkok grunaður um fíkniefnamisferli. Móðir hans segir nú vatn flæða inn í fangelsið.

„Nú eru þetta bara eins og sardínur í dós, því að það er búið að flytja svo marga fanga þangað yfir úr hinum fangelsunum. Eins og hann sagði þá er vatnið þarna hjá honum einn og hálfur metri," segir Borghildur Antonsdóttir.

Borghildur segir fangana sofa á gólfinu. Nú sé það ekki hægt því vatn flæði um alla ganga.

„Maður er bara máttvana, að geta hvorki verið þarna nálægt honum eða hjálpað honum. Maður situr bara og horfir út í loftið. Það er ekkert sem ég get gert þó ég myndi vilja það," segir Borghildur.

Hún segir það mikilvægast að segja Brynjari hvað sé á seyði. Hann skilji ekki neinn í fangelsinu.

„Það eina sem hann veit er að allt hefur fyllst af föngum og vatni," segir Borghildur.

Fjölskylda Brynjars reynir því núna að safna peningum til að geta flutt hann yfir í annað fangelsi.

Þeir sem vilja aðstoða Brynjar geta lagt inn á eftirfarandi reikning: Banki 0537 höfuðbók 26 reikningsnúmer 494949 og kennitala 0605494949.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×