Innlent

Sjúkrahúsið þarf að fækka starfsfólki um 25

JMI skrifar
Sjúkrahúsið á Akureyri þarf að fækka starfsmönnum sínum um tuttugu og fimm á næsta ári. Stjórnendur vinna nú að því að breyta endurhæfingar- og barnadeild í fimm dagadeild yfir sumartímann, draga úr skurðþjónustu, fækka rúmum á handlækningasviði og minnka aðra þjónustu eins og á bókasafninu. Forstjóri sjúkrahússins segir biðlista kunna að lengjast.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er eins komma sjö prósentu krafa á sjúkrahúsið á Akureyri. Það þarf því að draga saman um eitt hundrað og sjötíu milljónir króna á næsta ári en nú þegar er sjúkrahúsið rekið með halla.

Þorvaldur Ingvarsson, forstjóri sjúkrahússins, segir þetta hafa mikil áhrif á starfsemina.

„Við erum að vinna í því að breyta endurhæfingardield okkar í fimmdaga-deild og komum til með að draga úr skurðþjónust og fækka rúmum á handlækningasviði. Það er verið að kanna það hvort hægt sé að breyta barnadeild í fimm daga deild, a.m.k. yfir sumartímann. Við komum til með að minnka tölvert þjónustu, bókasafnsþjónustu og draga saman þjónustu á mjög mörgum sviðum. Þetta kemur hreint við á ótrúlega mörgum stöðum á sjúkrahúsinu.“

Jafnframt þarf að fækka starfsmönnum.

„Við þurfum að fækka störfum um 20-25 en það verður reynt að komast hjá uppsögnum. Þetta verður gert í kringum starfsmannaveltu og tímabunda samninga sem renna út. Það geta komið til uppsagna tveggja eða þriggja einstaklinga.“

Þorvaldur segir hins vegar spítalann ætla að halda vörð um alla bráðaþjónustu og geðdeildina.

Spítalinn hefur nú þurft að skera niður um um það bil sautján prósent á fjórum árum. Á sama tíma hefur verið skorið niður í heilbrigðisþjónustu í nærliggjandi sveitum, t.a.m. sauðarkróki og Húsavík, sem hefur leitt til þess að fólk hefur verið sent á sjúkrahúsið á Akureyri.

„Það verður að koma í ljós hvernig við bregðumst við ef þeim sjúkrahúsum verður hreint og beint lokað. Það er augljóst að það er ekki gott fyrir okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×