Innlent

Rektor HR býst við meira fé

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.
Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, gerir ráð fyrir því að stefna stjórnvalda sé sú að háskólastarf á Íslandi standi ekki höllum fæti gagnvart samanburðarlöndum innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og fleiri skólar en Háskóli Íslands muni því njóta aukinna fjárveitinga frá því sem nú er. Hann fagnar stofnun Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og að stjórnvöld viðurkenni mikilvægi háskólastarfs með þeim hætti. „Ég vænti því þess að framhald verði á því að auka framlög til alls háskólastarfs í landinu. Þetta verður bara að vera fyrsta skrefið."

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tilkynnti um helgina að stjórnvöld hygðust leggja 1,5 milljarða króna í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands fram til ársins 2014. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sagði af þessu tilefni að það lýsti framsýni á erfiðum tímum í fjármálum ríkisins, að setja markmið til langs tíma um uppbyggingu Háskóla Íslands. „Það er afar mikilvægt að við getum byggt upp skólann með sambærilegum fjárveitingum og við sjáum í löndunum í kringum okkur."

Ari vill ekki horfa sérstaklega til stofnunar Aldarafmælissjóðsins en telur affarasælast að þegar aukið fé sé veitt til háskólastarfs fari það í gegnum samkeppnissjóði eða að til grundvallar beinum fjárveitingum liggi mat á árangri og gæðum sem hægt sé að vísa til þegar slíkar fjárveitingar koma til.

„Það sem við höfum alltaf haft sem sjónarmið í HR, þegar kemur til útdeilingar á fjármagni til háskólastarfsemi, er að það séu gæði og árangur sem ráði því hvert fjármunirnir fara. Það er gert með beinum framlögum til stofnana í samræmi við gæði starfsins eða í gegnum sterka samkeppnissjóði. Þetta er gert um allan heim og við viljum sjá sama fyrirkomulag á Íslandi," segir Ari Kristinn.

Ari segir að þótt mælikvarðar til að meta árangur og gæði séu til og notaðir um heim allan hafi slík aðferðafræði ekki verið tekin upp hérlendis, þrátt fyrir að það sé lykilatriði að mat á árangri og gæðum starfsins liggi til grundvallar fjárveitingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×