Innlent

Nota stolin bílnúmer til að svíkja út bensín

Mynd tengist frétt ekki beint
Mynd tengist frétt ekki beint Mynd/Heiða
Færst hefur í vöxt að skráningarnúmerum bifreiða sé stolið en tilkynnt var um slíkan þjófnað á Hvolsvelli í vikunni sem leið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Hvolsvelli. Þar segir að í mörgum tilfellum séu óprúttnir aðilar að nota skráningarnúmerin á aðrar bifreiðar til að svíkja út eldsneyti.

Mikið var að gera hjá lögreglunni í umdæminu í vikunni sem leið og eru 40 mál skráð í dagbókina.

Á laugardagskvöldið hafnaði bifreið út af þjóðveginum austan við Kirkjubæjarklaustur. Engin meiðsl urðu á fólki svo vitað sé. Þá voru tvö umferðaróhöpp tilkynnt þar sem sá sem olli tjóninu hafði ekki numið staðar og tilkynnt um tjónið.

Sjö ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka of hratt, tveir af þeim sem óku hraðast mældust á 124 kílómetrahraða á klukkustund.

„Haustið er greinilega að banka á dyr hjá okkur og gróður skartar sínum fallegustu litum. Nú má búast við að hálka geti myndast og menn því beðnir um að gæta að sér og fylgjast með veðri og kuldatölum, sérstaklega á kvöldin og á nóttunni.

Samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja er heimilt að nota keðjur og neglda hjólbarða á tímabilinu frá og með 1. nóvember til og með 15. apríl, nema þess sé þörf vegna aðstæðna sem geta myndast," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×