Innlent

Erlendir sérfræðingar skoða bilun í símkerfi

Liv Bergþórsdóttir er framkvæmdastjóri NOVA
Liv Bergþórsdóttir er framkvæmdastjóri NOVA mynd/Valgarður
Erlendir sérfræðingar eru komnir til landsins vegna alvarlegrar bilunar sem kom upp í gær þegar farsímanotendur Nova og Vodafone gátu hvorki hringt né móttekið símtöl í um tvo og hálfan klukkutíma vegna bilunar í dreifikerfi fyrirtækjanna.

Farsímakerfið lá niðri frá um klukkan hálf sex til klukkan átta í gærkvöldi þegar bilun varð í búnaði sem stýrir dreifikerfinu, en búnaðurinn sem um ræðir er tvöfaldur og undir eðlilegum kringumstæðum hefði varasamband átt að komast á án nokkurra truflana.

Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, segir að allt verði gert til þess að tryggja að þetta komi ekki fyrir aftur.

„Framleiðandi farsímakerfisins lítur bilunina mjög alvarlegum augum og hingað til lands eru þegar komnir tveir erlendir sérfræðingar. Verið er að greina vandamálið til hlítar og fyrirbyggja að slíkt geti endurtekið sig," segir Liv.

Hefur komið upp svona alvarleg bilun áður í kerfinu ykkar?

„Nei, það hefur ekki komið upp sambærileg bilun áður," segir Liv. „Auðvitað geta þessi kerfi bilað og eru í raun tvöfaldur og varaleiðir eiga að taka við. Það varð þetta alvarleg bilun vegna þess að það brást."

Í tilkynningu sem Vodafone gaf út segir að fyrirtækið harmi þau óþægindi sem viðskiptavinir urðu fyrir vegna bilunarinnar. Fyrirtækið líti málið mjög alvarlegum augum og hafi þegar hafist handa við að tryggja að bilun af þessu tagi valdi ekki aftur þjónusturofi eins og varð í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×