Innlent

Þingnefndarformaður vill að Landsvirkjun hjálpi Helguvík

Kristján Möller
Kristján Möller
Kristján L. Möller, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir nauðsynlegt að Landsvirkjun komi að orkuöflun fyrir álverið í Helguvík. Það sé skjótvirkasta leiðin til að skapa 1.500 til 2.000 manns störf. Þetta kom fram á fundi í Garðinum í gærkvöldi, sem um 150 manns sóttu, þar sem spurt var hvenær fólk á Suðurnesjum fengi vinnu.

Kristján L. Möller hvatti þar til þess að Landsvirkjun kæmi að málinu. Hann tekur fram að þetta sé samningsatriði milli orkusala og orkukaupanda en kveðst ítreka þá skoðun sína að Landsvirkjun þurfi að koma að þessu til að klára þetta mál.

Spurður hvort vilja skorti hjá ríkisstjórninni til slíks svarar Kristján að hann telji ekki að stjórnmálin sem slík séu að kássast inn í þetta mál enda sé Landsvirkjun með sérstjórn. Það sé miklu fremur að menn þurfi að bretta upp ermar og klára þetta og hætta að bíða eftir gerðardóminum og öllum hinum.

Spurður hvort Landsvirkjun þurfi ekki að virkja í Þjórsá til að útvega raforkuna og hvort þar standi ekki hnífurinn í kúnni svarar Kristján að hann hafi á fundinum í gærkvöldi, ásamt öðrum orkukostum í jarðvarma á Reykjanesi, nefnt Þjórsána með sín tæplega 300 megavött, og bent á að henni væri í drögum að rammaáætlun raðað í nýtingarflokk, - og hún yrði kláruð á Alþingi á þessu þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×