Innlent

Notkun sýklalyfja við unglingabólum áhyggjuefni

Hátt í þrjú hundruð börn á aldrinum 10 til 14 ára taka að jafnaði sýklalyf á hverjum degi vegna unglingabóla. Yfirlæknir á sýkladeild segir notkun sýklalyfja áhyggjuefni en fjölónæmum sýklum fer fjölgandi hér á landi.

Fjölónæmir sýklar eru vaxandi vandamál hér á landi. Slíkir sýklar valda sýkingum sem oft getur verið erfitt að ráða við. Þannig þarf oft bæði sterkari og dýrari sýklalyf til að vinna bug á sýkingunum.

Karl Kristinsson, yfirlæknir á sýkladeild Landspítalans hefur áhyggjur af vaxandi sýklalyfjaónæmi. Hann telur að í sumum tilfellum sé verið að nota of mikið af sýklalyfum og nefnir þar sem dæmi svokölluð tetrasýklalyf, sem eru að hans mati of mikið notuð við meðhöndlun unglingabólna.

Aðeins eitt slíkt lyf er í notkun hér á landi það er doxýsýklín, sem er breiðvikt sýklalyf. Notkunin er mest í aldurshópnum 10 til 14 ára en árið 2009 voru að jafnaði 266 börn að taka þetta sýklalyf á hverjum degi.

„Ég held við séum allavega Evrópumeistarar, ef ekki heimsmeistarar í notkun á þessum lyfjum. Það skýrist nánast að mestu leyti, ef ekki öllu leyti af mikilli notkun við unglingabólum." segir Karl, en sterk fylgni er á milli sýklalyfjanotkunar og sýklalyfjaónæmis. „Eftir því sem sýklalyfjanotkun er meiri því mun meira er um sýklalyfjaónæmi og hraðari þróun."

Hann segir því að mikilvægt sé að draga úr óhóflegri og mikilli notkun sýklalyfja til að tefja þessa þróun. Þegar séu komnar bakteríur sem engin lyf ráða við en þær hafi sem betur fer enn ekki borist hingað til lands. „Þróun á nýjun skýklalyfjum hefur nánast stöðvast og það eru engin ný sýklalyf í sjónmáli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×