Innlent

Geðhjúkrunarfræðingar: Aðstaðan á Kleppi betri en á Sogni

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Kleppur.
Kleppur.
Fagdeild geðhjúkrunarfræðinga hefur lýst yfir stuðningi við að starfsemi réttargeðdeildarinnar á Sogni verði færð á Kleppspítala í Reykjavík.

Fagdeildin komst að þessari niðurstöðu á fundi sínum í gær en með fyrirkomulaginu telja geðhjúkrunarfræðingar að betur sé unnt að tryggja faglega þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra vegna nálægðar við sérhæfða þjónustu, sem einnig leiði til þess að auðveldara verði að tryggja öryggi sjúklinga og starfsfólks. Helga Sif Friðjónsdóttir er formaður fagdeildar geðhjúkrunarfræðinga.

„Það voru þrjátíu manns á fundinum okkar. Við fórum yfir þetta mál og við vorum einróma sammála um það að fagleg sjónarmið og öryggissjónarmið skipta miklu máli þarna,“ segir Helga.

Helga segir geðhjúkrunarfræðinga vera á þeirri skoðun að aðstaðan á Kleppi sé betri en á Sogni fyrir skjólstæðingahópinn.

„Og við fögnum því að hagsmuni þessara skjólstæðinga sé gætt í hvívetna.“

Þá telur hún jafnframt nauðsyn á að viðeigandi ráðstafanir verði gerðar til að öryggi sjúklingana verði áfram tryggt og að hagsmuna þeirra og starfsfólks verði gætt við breytinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×