Innlent

Manngerðir jarðskjálftar: "Það er alls ekki í lagi“

„Ég hef aldrei orðið fyrir alvarlegum óþægindum af þessu eins og ég segi er ég ekki hrædd, manni bara bregður. En sú tilhugsun að þetta er af mannavöldum? Það finnst mér aftur ekki í lagi, alls ekki í lagi," segir Anna Halla Hallsdóttir, íbúi í Hveragerði um jarðskjálftana en íbúum er verulega brugðið eftir morguninn, enda skóku tveir skjálftar bæinn á innan við klukkustund. Báðir mældust fjórir á richter.

„Ég fann skjálftana mjög greinilega, ég var nývöknuð og hentist öll til," sagði Móeiður Þorvaldsdóttir.

Guðlaug Berling Björnsdóttir sagði að það hefði farið um hana, „ Maður veit ekki hvort þetta er af völdum manna eða hvort að þetta eru náttúruhamfarir í raun og það er svolítið ógnvekjandi," sagði Guðlaug enda Íslendingar óvanir því að jarðskjálftar séu af manna völdum.

Hvergerðingar ætla ekki að sætta sig við manngerðu jarðskjálftana sem starfsemi Orkuveitunnar hefur valdið. Íbúarnir eru margir óttaslegnir og segja sumir skjálftana kalla fram erfiðar minningar. Á annað hundruð jarðskjálftar hafa orðið í dag við Hellisheiðarvirkjun, þar á meðal tveir á um 4 á Richter sem fundust víða á Suður- og Vesturlandi.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði segir íbúa bæjarins hafa fengið sig fullsadda af þeim skjálftum sem verða af völdum niðurdælingar vatns frá virkjuninni.

„Ég held að það hljóti allir að vera sammála okkur í því að það er alveg með öllu ólíðandi að þurfa að búa við manngerða jarðskjálfta, nógu mikil er nú náttúruváin á Íslandi þó að við séum ekki að bæta í hana með því að búa hana til," sagði Aldís.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.