Erlent

Helmingur Bandaríkjamanna vill lögleiða marijúana

Ný skoðannakönnun Gallup í Bandaríkjunum sýnir að í fyrsta sinn í sögunni vill helmingur Bandaríkjamanna lögleiða marijúana

Í frétt um málið á heimasíðu Gallup segir að í svipaðri könnun í fyrra hafi 46% Bandaríkjamanna viljað lögleiða marijúana. Sífellt stærri hópur fólks vestan hafs vill lögleiða marijúana. Þannig vildu 12% Bandaríkjamanna gera slíkt í fyrstu könnun Gallup um málið árið 1969 en 84% voru því andvíg. Árið 2000 var hlutfall þeirra sem vildu lögleiða marijúana komið í 30% og hlutfallið fór yfir 40% árið 2009.

Stuðningur við lögleiðingu er mestur meðal ungs fólks. Þannig vilja yfir 60% þeirra sem eru á aldrinum 18 til 29 ára lögleiða þetta fíkniefni.

Marijúana er mest notaða ólöglega fíkniefnið í Bandaríkjunum. Samkvæmt umfangsmikilli könnun frá árinu 2009 höfðu tæplega 17 milljónir Bandaríkjamanna yfir 12 ára að aldri notað marijúana í þeim mánuði sem spurt var. Sá fjöldi samsvarar um 17.000 Íslendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×